Samfélagsleg nýsköpun og ábyrgð
Efnisyfirlit síðu
Hvað er samfélagsleg nýsköpun? Hvernig er hægt að fá góða nýsköpunarhugmynd?
Hvað er samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi
Samfélagslegar áskoranir 2018-2021
Umhverfismál og sjálfbærni, Heilsa og velferð og Líf og störf í heimi breytinga
Hringrásarhagkerfið
Hvers vegna skiptir hringrásarhagkerfið máli?
Sjálfbærni
Hvað get ég gert?
Framtíðarfræðin
Kennslubók: Að hugleiða framtíðir
Hvernig er hægt að fá góða og gagnlega samfélagslega nýsköpunarhugmynd?
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Ýmsir tenglar og náms- og/eða stuðningsefni sem tengjast ofangreindu efni
Hvað er samfélagsleg nýsköpun? Hvernig er hægt að fá góða nýsköpunarhugmynd?
Í sinni einföldustu mynd er samfélagsleg nýsköpun ekki svo frábrugðin hefðbundinni nýsköpun, nema að meginmarkmiðið er að skapa samfélagslegt virði. Þannig leggur samfélagsleg nýsköpun áherslu á breytingar í samfélaginu en skapar um leið tekjur til að styðja við þær breytingar. Samfélagsleg nýsköpun styðst við aðferðir frumkvöðla við að skapa lausnir við samfélagslegum vandamálum og nýtir sér ítrunarferli við að þróa afurð. Samfélagsleg nýsköpun hvetur einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki til að taka þátt í nýsköpun sem hefur í för með sér jákvæð áhrif á samfélagið og opnar um leið augu almennings fyrir mikilvægi þess að nýsköpun stuðli að samfélagslegum ávinningi.
Hvað er samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi
Samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi
Stjórnvöld víða um heim átta sig nú í auknum mæli á því að þau ná ekki öllum markmiðum sínum án virkrar þátttöku fólks í samfélaginu og þeirrar orku sem það býr yfir en einnig búa stjórnvöld ekki yfir því fjárhagslega bolmagni til að takast á við öll þau samfélagslegu úrlausnarefni sem fyrir liggja. Hér kemur samfélagslegt frumkvöðlastarf til skjalanna, sem afl til jákvæðra og skipulagðra breytinga.
Samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi byggir ekki eingöngu á hagnaðarvon heldur fyrst og fremst á löngun til að efla eða laga félagslegt eða samfélagslegt málefni, þar sem fjárhagslegur ágóði skiptir oft litlu máli fyrir frumkvöðulinn.
Samfélagsleg frumkvöðlastarfsemi gerist yfirleitt þegar einhver stofnar fyrirtæki eða vettvang, með það fyrir augum að skapa úrræði til þess að geta uppfyllt ákveðin samfélagsleg markmið eða leyst vandamál þeim tengd. Þó að fjárhagslegur ágóði sé ekki markmiðið í sjálfu sér, þurfa þó einhverjar tekjur og eða styrkir að renna inn í fyrirtækið, til að fyrirtækið/hugmyndin sé að minnsta kosti sjálfbær, til lengri tíma litið.
Hagnaðardrifin samfélagsfyrirtæki reka atvinnustarfsemi sína á sama fjárhagslega hátt og önnur fyrirtæki en hagnaðarhugsuninni er skipt út fyrir annað markmið. Til dæmis er hægt að ráða fólk með mismunandi hamlanir, í minnihlutahópum eða öðrum jaðarhópum til starfa (og láta hagnaðinn þannig t.d. niðurgreiða aukinn launakostnað) eða að hugsanlegur ágóði renni til ákveðins samfélagslegs málefnis.
HVERS VEGNA ER SAMFÉLAGSLEG NÝSKÖPUN EINSTAKLINGA SVONA MIKILVÆG?
Stjórnvöld hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að takast á við öll þau samfélagslegu úrlausnarefni sem fyrir liggja en hér kemur samfélagslegt frumkvöðlastarf til skjalanna sem afl til jákvæðra og skipulagðra breytinga.
Samfélagslegir frumkvöðlar eru mikilvægir þar sem líklegt er, vegna persónulegrar reynslu sinnar, upplifunar og þekkingar, að þeir beri kennsl á samfélagsleg vandamál sem leysa þarf – og geti þess vegna komið fram með lausnir við þeim.
Samfélagslegar áskoranir 2018-2021
Brýnustu áskoranirnar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á næstu áratugum.
Vísinda-og tækniráðs hefur í samráði við almenning, fulltrúa stjórnmálaflokka á Alþingi, vísindasamfélagið og atvinnulífið greint brýnustu áskoranirnar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á næstu áratugum.
Til þess að mæta þeim brýnu samfélagslegu áskorunum sem hér er bent á er nauðsynlegt að leiða saman þekkingu og styrkleika mismunandi fagsviða, tækni og fræðigreina, þ.m.t. félags- og hugvísinda og taka til alls nýsköpunarferlisins frá rannsóknum að hagnýtingu. Markmiðið er að auka skilning á íslensku samfélagi og umhverfi, finna lausnir og styðja við fjölbreytt og nýsköpunarmiðað samfélag á tímum örra breytinga.
Umhverfismál og sjálfbærni
Stuðla að því að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð, auka skilning á og leysa helstu umhverfisvá sem Ísland stendur frammi fyrir, stuðla að notkun nýrrar tækni og nýsköpunar í sjálfbærri nýtingu auðlinda og fæðuframleiðslu.
Hér undir falla m.a. loftslagsmál, verndun lands og sjávar, mengun, sjálfbær orka og samgöngur, fæðuöryggi, náttúruvá, traust miðlun þekkingar um umhverfismál til almennings, og áhrif umhverfisbreytinga á fólk og samfélag.
Heilsa og velferð
Viðhalda heilbrigði, greina og meðhöndla sjúkdóma, fylgjast með breytingum á lýðheilsu og fyrirbyggja sjúkdóma. Þá þarf að rannsaka hvernig unnt sé að gera fólki kleift að lifa sem best, sem lengst, þannig að stuðlað sé að heilbrigðri öldrun og velferð fólks á öllum æviskeiðum á tímum örra breytinga.
Hér undir falla m.a. breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir, geðheilbrigði, líðan, nýting heilbrigðistækni og gagnagrunna, lífsstílssjúkdómar og jafnvægi vinnu og einkalífs.
Líf og störf í heimi breytinga
Auka þarf skilning á þeim áhrifum sem miklar og örar breytingar hafa á samfélagið, vinnumarkað og líf fólks. Þær breytingar sem hér um ræðir eru m.a. tækniframfarir, lýðfræðilegar breytingar, fólksflutningar, breytt samskipti og breytingar á atvinnulífi.
Hér undir falla m.a. hagnýting hugvits, tækni og nýsköpunar til að bregðast við breytingum; mannaflaþörf, fjölbreytni samfélagsins, jafnrétti, traust í samfélaginu og menntun á öllum skólastigum. Þá fellur hér undir hvernig unnt sé að miðla vísindalegri þekkingu og nýsköpun til að takast á við ofangreindar áskoranir.
Hringrásarhagkerfið*
Hvað er það?
– Hringrásarhagkerfi er hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er.
– Hönnun og framleiðsla vöru er þannig að hún endist lengi og auðvelt er að gera við hana og endurvinna. Deiliþjónusta er nýtt og neytendur endurnota vörur. Verði vara að úrgangi tekur við skilvirk flokkun, söfnun og endurvinnsla sem heldur hráefnum í hringrás.
– Markmiðið er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. .
Hvers vegna skiptir hringrásarhagkerfið máli?
Línulegt hagkerfi nútímans hefur ýtt undir stuttan líftíma vara og ásókn í auðlindir. Auðlindaásókn er nærri tvöfalt meiri en mögulegt er að standa undir með sjálfbærum hætti. Það leiðir til hnignunar lífríkis og neikvæðra loftslagsáhrifa. Með hringrásarhagkerfi má auka hagsæld og lífsgæði en um leið standa vörð um takmarkaðar auðlindir jarðar, stuðla að sjálfbærni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Hagræn áhrif og grænn hagvöxtur
Núverandi neyslumenning og línulegt hagkerfi stuðla að hagvexti í heiminum. Nauðsynlegt er að rjúfa þau tengsl, breyta venjum og ná fram sjálfbærum hagvexti. Rannsóknir sýna að búast má við að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið og aukin landsframleiðsla. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins.
Loftslagsáhrif
Betri auðlindanýting og minni úrgangsmyndun leiðir til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðir í þágu hringrásarhagkerfisins eru þannig gjarnan loftslagsvænar um leið. Íslensk stjórnvöld stefna á kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Hringrásarhagkerfið mun eiga stóran þátt í því
Ný störf verða til
Með eflingu hringrásarhagkerfis má búast við að ný störf skapist í viðgerðarþjónustu og annarri þjónustu, endurvinnslu og annarri meðhöndlun úrgangs, nýsköpun, hugviti og hönnun. Greining á vinnumarkaðsáhrifum þess að Evrópa hverfi frá línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi leiddi í ljós að líklegt er að fleiri störf verði til en hverfi.
*Textinn um hringrásarhagkerfið er tekinn beint úr bæklingnum Hringrásarhagkerfið, sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf út. Endilega kíkið á hann, þar er mikið af gagnlegum upplýsingum – athugið hvort þið fáið einhverjar hugmyndir tengdar þessu. Bæklinginn má nálgast HÉR
Sjálfbærni
Hvað er sjálfbærni?*
Til eru margar skilgreiningar á sjálfbærni en í grunninn snýst sjálfbærni um að allir jarðarbúar, óháð því hvar og hvenær þeir eru fæddir, geti mætt sínum þörfum (t.d. hreint vatn, matur, húsaskjól, menntun og heilbrigðisþjónusta) án þess að ganga svo nærri auðlindum og lífríki jarðar að komandi kynslóðir geti ekki mætt þörfum sínum.
Til að þetta sé í jafnvægi þurfum við að hafa þrennt í huga og gæta að þessum þáttum: félagleg þróun, efnahagsleg þróun og loftslag & umhverfi.
Við þurfum langtímaplan
Í raun er sjálfbært samfélag langtímaplan þar sem gert er ráð fyrir jafnvægi á milli samfélags, efnahags og náttúru. Ágangur manna á auðlindir jarðar er mikill og dregur hann úr tækifærum sem börnin á jörðinni og komandi kynslóðir geta nýtt sér í framtíðinni.
Við þurfum að vinna heima með heiminn í huga og auka meðvitund fólks um að lífsstíll og neysluhegðun okkar hefur áhrif á kjör og aðstæður fólks annarsstaðar í heiminum.
Mikilvægt er að draga úr neyslu og stefna að sjálfbærri nýtingu auðlinda með framtíð mannkyns og lífs á jörðu að leiðarljósi.
* tekið af heimasíðu Landverndar en “Samtökin vilja vekja fólk til vitundar um neyslu svo að það endurhugsi framtíðina.” Sjá nánar um Landvernd og sjálfbærni HÉR
Hvað get ég gert?
Hvað get ég gert sem frumkvöðull? Hvað get ég lagt af mörkum til að stuðla að sjálfbærara samfélagi? Hafðu þetta í huga þegar þú ert að setja saman viðskiptahugmyndina og hanna eða framleiða eitthvað – en einnig reyndu að fá einhverja hugmynd sem getur aðstoðað aðra við þetta og lagt þannig þitt af mörkum til að tækla þetta:
Ég get… lágmarkað úrgang
– Þarf ég þetta, eða er þetta kannski eitthvað sem endar fljótt í ruslinu?
– Þarf ég allar þessar umbúðir?
– Hvað með að endurvinna?
– Hvernig get ég gert innkaup mín umhverfisvænni?
Ég get… lágmarkað skaðlegan útblástur
– Takmarkað orkunotkun og notað endurnýjanlega orku frekar en óendurnýjanlega
– Hjólað, gengið eða tekið strætó í skólann
– Verslað í nágrenni mínu
Ég get… notað hugvitið
– Hugsað út fyrir hina hefðbundnu ramma og tekið umhverfismál með í ákvarðanatöku minni
– Stundað rannsóknir á umhverfi og sjálfbærni og miðlað af þekkingu minni
– Ég get stuðlað að heilbrigðri samræðu við samferðafólk um sjálfbærni og umhverfismál
Ég get… látið til mín taka
– Ég/fyrirtæki mitt getur verið fyrirmynd í hversdagslegum athöfnum
– Ég/fyrirtæki mitt getur beitt sér fyrir betri heimi
*https://www.hi.is/haskolinn/hvad_get_eg_gert
Framtíðarfræðin
Fínt er að tengja framtíðarfræðina við samfélagslega nýsköpun og pæla í hvernig þú vilt að framtíðin eigi að vera. Eins og margoft hefur sýnt sig getur ein lítil hugmynd komið af stað skriðu breytinga inn í framtíðina.
Framtíðarfræði samanstendur af aðferðum sem hægt er að beita til að greina hugsanlegar birtingarmyndir framtíðar á kerfisbundinn hátt. Hér er ekki átt við tískufyrirbrigði heldur grundvallarbreytingar sem eiga sér stað á næstu tíu til tuttugu árum. Tilgangurinn er að sannreyna hugsanlegar birtingarmyndir eða framtíðir, meðal annars til að geta tekið betri ákvarðanir um stefnur, markmið og leiðir.
Framtíðarfræðingar hafa aðferðir í sínum fórum til að hjálpa til við að draga upp hugsanlega birtingarmyndir framtíðar, á sama hátt og sagnfræðingar segja okkur hvað hafi átt sér stað og fjölmiðlamaðurinn hvað sé að gerast. Framtíðarfræðingurinn spáir ekki um framtíðina heldur bendir á hugsanlega þróun, en getur síðan spáð um einstaka hluti með hliðsjón af viðkomandi þróun. Þó svo að nálganir framtíðarfræðinga geta verið mismunandi þá er almenn sátt um eftirfarandi forsendur innan greinarinnar:
– Að ekki sé hægt að vita hvernig framtíðin verður en hægt er að vita um röð hugsanlegra birtingamynda framtíðarinnar.
– Að hægt sé að breyta líkindum um framtíðar viðburði og forsendur með ákvörðun eða stefnumótun og hverjar verða afleiðingar hennar.
– Að hægt sé að gefa líkindi og vitneskju um framtíðar hluti; við getum verið vissari um sólarupprás en um vöxt á hlutabréfamarkaðnum.
– Að engin ein aðferð er sú eina rétta; heldur er sambland aðferða notað til að öðlast meiri færni í að sjá fyrir hluti.
– Að fólk í dag hefur meiri áhrif á framtíðina en það gerði hér áður fyrr.
Kennslubók: Að hugleiða framtíðir
Kennslubókin Að hugleiða framtíðir, sem gefin er út af Framtíðarsetri Íslands, er hönnuð bæði fyrir nemendur og kennara til að hjálpa yngri kynslóðunum að sjá fyrir og hafa áhrif á framtíðina. Þessi gagnvirka, skemmtilega og grípandi vinnubók mun opna augu þín fyrir mörgum mögulegum og óvæntum framtíðum. Bókin, sem skipt er í sextán viðráðanlegar æfingar eða nokkurs konar leiki, stuðlar að skapandi og gagnrýnni hugsun ungs fólks.
Þessi bók er hreint kjörin til að tengja nýsköpun við framtíðarfræðina og leyfa þannig unga fólkinu að huga að framtíðinni, hvernig þau vilji sjá hana fyrir sér og taka þátt í mótun hennar.
Hægt er að nálgast bókina ásamt leiðbeiningum og viðbótarefni, gjaldfrjálst hér að neðan en einnig er hægt að kaupa hana á Amazon
Áhugasamir kennara geta fengið eitt ókeypis prentað eintak af bókinni og skólar og aðrir hópar geta fengið afslátt, ef keypt eru mörg eintök, með því að hafa samband við Karl Friðriksson hjá Framtíðarsetri Íslands á karlf@framtidarsetur.is.
Hvernig er hægt að fá góða og gagnlega samfélagslega nýsköpunarhugmynd?
Rétt eins og með aðrar nýsköpunarhugmyndir, er gott er að finna raunverulega þörf, vandamál eða áskoranir til að reyna að leysa í stað þess að reyna að koma bara upp „með eitthvað nýtt“. „Vandamálin“ geta tengst þér persónulega, áhugamáli þínu eða nánasta umhverfi, samfélaginu, umhverfinu o.s.frv. Hægt er að reyna að laga og bæta eitthvað sem þegar er til; að endurvinna hluti, að nýta eitthvað sem þegar er til með öðrum hætti en hefur verið gert og að tengja saman einhverja hluti eða þætti sem þegar eru til og búa þannig til eitthvað nýtt. Einhver/eitthvað þarf að geta notið góðs af hugmyndinni og þarf hún að vera framkvæmanleg. Best er að tengja áhugamál, þekkingu og reynslu við það vandamál sem þú vilt leysa. Ágætt er að spyrja sig – og svara – þessum spurningum::
- Hvaða vandamál vilt þú leysa? Af hverju viltu leysa það?
- Hver er hugmyndin þín og hvernig virkar hún?
- Hverjir geta nýtt sér hugmyndina – fyrir hverja er hún?
- Hversu auðvelt eða erfitt er að fullklára hugmyndina? Þarftu aðstoð við hana – og þá frá hverjum?
Hér að neðan koma nokkrir punktar sem geta gefið þér einhverja hugmynd að þörf/vandamáli sem hægt væri að leysa.
Persónuleg þekking og reynsla
Eru einhverjir erfiðleikar, vandamál eða annað sem tengist lífi þínu, áhugamálum þínum eða öðru sem þú myndir vilja leysa?
Eru einhverjir erfiðleikar, vandamál eða annað sem tengist fjölskyldu þinni eða vinum sem þú myndir vilja leysa?
Brennir þú fyrir einhverju málefni sem þú vilt taka þátt í að koma að umræðunni, leysa vandamál því tengdu eða byggja upp?
Hefur þú nánd og þekkingu á samfélagslegu málefni sem þú vilt taka þátt í að leysa?
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Til að fá góða og gagnlega hugmynd sem getur bætt samfélagið getur verið gott að skoða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjá þar þau vandamál sem eru til staðar í kringum okkur. Ert þú með einhverja hugmynd sem gæti leyst eitthvert vandamálanna? Hægt er að ýta á hvert markmiði, til að fá nánari upplýsingar um það.
Einnig er hægt að nálgast Kennslugögn frá Heimsins stærstu kennslustund HÉR en Í samstarfi við UNICEF voru kennslugögn útbúin fyrir Heimsins stærstu kennslustund (World’s Largest Lesson) í september 2015, sem eru leiðbeiningar fyrir 30 og/eða 60 mínútna langar kennslustundir, ásamt myndbandi um markmiðin með íslensku tali og teiknimyndasögu.
Undirmarkmið
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir og þá einkum fátækt fólk og fólk í viðkvæmri stöðu, eigi jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða og aðgengi að grunnþjónustu...
Undirmarkmið
Árið 2030 heyri vannæring sögunni til. Sjálfbærni í matvælaframleiðslu verði tryggð og teknir upp starfshættir sem auka framleiðni í landbúnaði...
Undirmarkmið
Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar. Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilbrigðisþjónustu...
Undirmarkmið
Tryggja jafnan aðgang að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun...
Undirmarkmið
Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar. Notast verði við tækniaðferðir, einkum upplýsinga- og fjarskiptatækni, í því skyni að styrkja stöðu kvenna...
Undirmarkmið
Eigi síðar en árið 2030 standi öllum til boða heilnæmt drykkjarvatn á viðráðanlegu verði hvar sem er í heiminum. Sjálfbær vatnsnotkun verði tryggð í því skyni að koma í veg fyrir vatnsskort...
Undirmarkmið
Eigi síðar en árið 2030 hafi hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkugjöfum aukist verulega. Nútímaleg orkuþjónusta verði í boði alls staðar á viðráðanlegu verði...
Undirmarkmið
Aukinni framleiðni í atvinnulífinu verði náð með fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun. Nýting auðlinda til neyslu og framleiðslu verði bætt jafnt og þétt...
Undirmarkmið
Stuðla að sjálfbærri iðnþróun. Innviðir styrktir og atvinnugreinar endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar. Skilvirkari nýting auðlinda...
Undirmarkmið
Eigi síðar en árið 2030 hafi varanleg tekjuaukning náð fram að ganga í áföngum fyrir 40% þess mannfjölda sem tekjulægstur er. Tryggð verði jöfn tækifæri og dregið úr ójöfnuði...
Undirmarkmið
Allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Eigi síðar en árið 2030 verði fjölgun í þéttbýli sjálfbær. Dregið verði úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum
Undirmarkmið
Sjálfbær og skilvirk nýtingu auðlinda. Sóun matvæla minnkuð um helming á hvern einstakling um heim allan. Aukin endurvinnsla og endurnýting. Betri nýting í matvæframlamleiðslu
Undirmarkmið
Viðbragðsáætlanir og forvarnir auknar. Menntun verði aukin til að vekja fólk til meðvitundar um hvernig öll geta haft áhrif og brugðist við loftslagsbreytingum...
Undirmarkmið
Verulega verði dregið úr og komið í veg fyrir hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusli í sjó og mengun af völdum næringarefna.
Undirmarkmið
vistkerfi á landi og í ferskvatni vernduð og stuðlað að sjálfbærri nýtingu þeirra og endurheimt, einkum skóga, votlendis, fjalllendis og þurrkasvæða...
Undirmarkmið
Taka fyrir misnotkun, misneytingu, mansal og hvers kyns ofbeldi. Dregið verði úr spillingu og mútum. Almenningur hafi aðgengi að upplýsingum og grundvallarréttindi verði tryggð
Undirmarkmið
Stuðlað verði að umhverfisvænni tækniþróun og flutningi, miðlun og dreifingu í þróunarlöndunum á hagstæðum kjörum, m.a. með ívilnunum og tilslökunum, eins og samkomulag næst um....
Heimasíða Heimsmarkmiðanna
Markmið um sjálfbæra þróun - áætlun til ársins 2030
Stuðningsefni úr Nýsköpunarkeppni grunnskólanna…