Margir framhaldsskólar vinna gott og mikilvægt menntastarf á sviði nýsköpunar, hönnunar, tækni, lista, iðnaðar og fleiri tengdra greina. Í lok annar sýna nemendur afrakstur sinn oft í skólum sínum en yfirleitt nær það ekki lengra. Með Samsýningu framhaldsskólanna gefst nú skólum tækifæri á að vinna með öðrum skólum að uppsetningu sameiginlegrar sýningar. Í hugmyndavinnu sinni, hafa nemendur oftar en ekki Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og er hugað sérstaklega að því að allt framleiðsluferli, frá hugmynd til lokaafurðar taki tillit til sjálfbærni, samfélagslegra áhrifa og/eða umhverfissjónarmiða.

Markmið Samsýningarinnar er m.a. að gefa nemendum tækifæri á að sýna almenningi afrakstur sinn, mynda tengsl við aðra og sýna fram á mikilvægi þess að styðja við og efla menntun á sviði nýsköpunar, hönnunar, lista og verklegra greina í íslensku samfélagi.

Á sýningunni má sjá fjölda fjölbreytilegra hluta og hugmynda. Sumar eru nýsköpun, aðrar falleg hönnun og/eða gott handverk og enn aðrar eru sambland af þessu. Mörg verkanna er einfaldlega lokaafurð nemendanna á brautinni í skólanum en aðrar hugmyndir tengjast frumkvöðlafræðunum og viðskiptahlið hennar.

Samsýningin var haldin í fyrsta sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, í lok haustannar 2018.  Þar tóku 112 nemendur, frá 5 framhaldsskólum, þátt.

Ráðhús Reykjavíkur hefur stutt einstaklega vel við sýninguna með því að veita okkur gjaldfrjálsan aðgang að Tjarnarsalnum.

Veittar eru viðurkenningar í eftirtöldum flokkum:

  • Frumlegasta hugmyndin. Viðurkenning fyrir framúrskarandi hugmyndaauðgi.
    • Viðmið dómnefndar: Frumleiki hugmyndarinnar
  • Hönnunarverðlaun. Viðurkenning fyrir framúrskarandi hönnun.
    • Viðmið dómnefndar: fallegasta/frumlegasta hönnunin
  • Samfélagsverðlaun. Viðurkenning fyrir framúrskarandi samfélagslega hugmynd.
    • Viðmið dómnefndar: Samfélagslegur ávinningur
  • Grænu verðlaunin. Viðurkenning fyrir framúrskarandi vistvæna lausn.
    • Viðmið dómnefndar: Hugmyndin dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum og/eða hefur mikil jákvæð áhrif.
  • Nýsköpunarverðlaun. Viðurkenning fyrir framúrskarandi nýsköpun.
    • Viðmið dómnefndar: hagnýti og nýnæmi. Er hugmyndin ný uppfinning, eða er hún útlits- og formhönnun á einhverju sem þegar er til, í endurbættri útgáfu eða nýtt á annan hátt?

Menntavísindasvið Háskóla Íslands sér um rekstur keppninnar.

Samstarfsaðilar 

Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Menntavísindasvið gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki með menntun leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, þroskaþjálfa, tómstundafræðinga, íþrótta- og heilsufræðinga og uppeldis- og menntunarfræðinga.

Menntavísindasvið, með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, er umsjónaraðili Samsýningarinnar.

Samtök iðnaðarins

Menntastefna Samtaka iðnaðarins

Menntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og menntakerfið er ein helsta undirstaða þess að samkeppnishæfni Íslands verði efld.

VILJI – Hvatningarverðlaun framhaldsskólakennara er í boði SI

Samtök iðnaðarins

Icelandic Startups

Undanfarin ár hafa að meðaltali borist um 500 nýjar viðskiptahugmyndir inn á borð til Icelandic Startups. Hlutverk félagsins er að skapa vettvang til tengslamyndunar og veita einstaklingum og teymum leiðsögn við mótun viðskiptaáætlana til að komast hratt að því hvort nægilegar viðskiptalegar forsendur séu til staðar og styðja þá við ferlið þar til vara er komin á markað.

Vísindagarðar Háskóla Íslands

Vísindagarðar Háskóla Íslands er suðupottur nýsköpunar sem leiðir framþróun og skapar virðisauka fyrir land og þjóð!. Framúrskarandi aðstaða er fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á fyrstu stigum í Grósku – hugmyndahúsi í Vatnsmýri. Hér er boðið upp á vinnuaðstöðu, fjölbreytta fræðslu og þjálfun. Í setrinu eru einnig fjölmörg tækifæri til tengslamyndunar og fullkomin aðstaða fyrir gróskumikið grasrótarstarf, viðburði, vinnusmiðjur, hakkaþon og keppnir.

Hugverkastofan

Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi. Stofnuninni veitir einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.

Framtíðarsetur Íslands

Framtíðarsetrið er leiðandi í nýtingu framtíðarfræða á Íslandi. Setrið er virkur þátttakandi í rannsóknum og verkefnum á sviði framtíðarfræða.
Hlutverk félagsins er meðal annars að vera leiðandi rannsóknarsetur á sviði framtíðarfræða hérlendis í öflugu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir hérlendis sem og erlendis.