Nýsköpun

Efnisyfirlit síðu

Nýsköpun

Hvað er nýsköpun? Hvernig er hægt að fá góða nýsköpunarhugmynd?

Hver er munurinn á nýsköpun og uppfinningu?

Róttæk nýsköpun, Stigvaxandi nýsköpun og Röskun (e. disruption)

Hvers vegna er nýsköpun svona mikilvæg?

Er öll nýsköpun góð nýsköpun?

Hvernig er hægt að fá góða og gagnlega nýsköpunarhugmynd?

Persónuleg reynsla, Nærumhverfið, Samfélagið, Umhverfið

Fimm leiðir til að finna hugmyndir

Hugarflæðisaðferðir

Opna-loka aðferðin

Þankahríð og þankaskrift (e. brainwriting)

Val á hugmyndum

Hönnunarhugsun (e. Design Thinking)

Á að deila hugmyndum sínum?

Lokuð nýsköpun

Opin nýsköpun

Leyndarsamningur

Ýmsir tenglar og náms- og stuðningsefni sem tengjast nýsköpun

     

    Hvað er nýsköpun? Hvernig er hægt að fá góða nýsköpunarhugmynd?

    Í stuttu máli má segja að nýsköpun feli í sér að skapa eða búa til eitthvað nýtt – eða laga og bæta eitthvað sem er nú þegar til staðar. Ekki er nóg að koma fram með hugmyndina heldur þarf að hrinda henni í framkvæmd til að hægt sé að tala um að einhver hugmynd sé nýsköpun.

    Mikilvægt er að muna að hægt er að laga eða bæta hluti, umhverfið og samfélagið. Það þarf ekki alltaf að búa til eitthvað sem hægt er að selja. Nýsköpun getur verið:

    • Nýjung fyrir fyrirtækið/skólann/stofnunina o.s.frv.
    • Nýjung fyrir markaðinn/svæðið/landið
    • Nýjung fyrir heiminn

    Nýsköpun getur verið sjálfsprottin, sprottin úr forvitni, úr því að skilja heiminn, gera betur, gera öðruvísi. Nýsköpun getur líka verið sprottin úr áskorunum. Við stöndum frammi fyrir vandamáli, við þurfum að leysa það. Þegar við sjáum fyrir að eitthvað gengur ekki upp, eins og í tilfelli heimsmarkmiðanna, þá þurfum við að breyta og finna nýjar leiðir. Það er í eðli sínu ekki sjálfsprottið heldur þurfum við að tína til það sem við vitum, við þurfum að flétta saman ólíka hluti til þess að leysa ákveðna áskorun.“( Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, prófessor  við Háskóla Íslands)

    Hver er munurinn á nýsköpun og uppfinningu?

    Nýsköpun

    Ný hugmynd, lausn eða endurbætur sem hrint er í framkvæmd. Nýsköpun getur verið vara, ferli eða þjónusta sem skapar virði, verðmæti og/eða leiðir til framleiðsluaukningar og hagræðingar. Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum, svo sem innan fyrirtækja og stofnana í atvinnulífinu, framleiðsluaðferðum, skólastarfi, umhverfi, samfélagi, listum, menningu, vísindum og tæknistarfi.

    Nýsköpun þarf að fela í sér bein, jákvæð áhrif og er undirstaða bættra lífskjara. Óbein, neikvæð áhrif geta þó komið í kjölfar nýsköpunar. Sagan hefur margoft sýnt að þrátt fyrir að uppfinningin og nýsköpunin sjálf hafi bein, jákvæð áhrif geti óbein, neikvæð áhrif oft komið síðar í ljós. Notkun á jarðefnaeldsneyti og kolum sem knýr stóran hluta farartækja okkar og verksmiðjur um allan heim eiga nú, bæði beint og óbeint, töluverða sök á hnattrænni hlýnun og komandi loftslagsbreytingum.

    Uppfinning

    Er tæknileg eðlis, svo sem nýtt tæki, aðferð, ferli og/eða samsetningu á hlutum sem þegar eru til, t.d.:
    • Ný vara eða tæki
    • Nýjar framleiðsluaðferðir
    • Endurbætta eða ný tækni

    Hægt er að fá einkaleyfi á mörgum uppfinningum en oft verða þær þó aldrei að veruleika, þ.e. þeim verður aldrei ekki hrint í framkvæmd – þær teljast því ekki til  nýsköpunar

    Uppfinning getur bæði falið í sér bein og óbein, jákvæð eða neikvæð áhrif. Það er t.d. erfitt að sjá að margar uppfinningar hafi bein jákvæð áhrif sbr. jarðsprengjur, fallöxina og önnur stríðstól. Þetta eru uppfinningar en ekki nýsköpun. 

    Margar uppfinningar eru þó að sjálfsögðu einnig nýsköpun.

    Þegar fyrirtæki innleiðir vöru sem þegar er til í öðrum löndum á nýjan markað er um útbreiðslu nýsköpunar að ræða en ekki nýsköpun í sjálfu sér.

    RÓTTÆK EÐA STIGVAXANDI NÝSKÖPUN

    Joseph Schumpeter gerði greinarmun á tveimur tegundum af nýsköpun: nýsköpun sem umbyltir markaðnum á eftirminnilegan hátt kallaði hann róttæka nýsköpun og nýsköpun sem verður til í skrefum við aðlögun á einhverju nefndi hann stigvaxandi nýsköpun.

    Róttæk nýsköpun

    Róttæk nýsköpun er oft tengd við innleiðslu á nýrri tækni sem hefur umtalsverð áhrif á hvernig samfélagið virkar.

    Vel þekkt söguleg dæmi um þetta eru rafmagnið og þróun á einkatölvum og snjallsímum. Öll þessi tækni hefur augljóslega breytt því hvernig fólk hagar daglegu lífi og atvinnu en einnig hvernig samskiptum er háttað.

    Róttæk nýsköpun er þó oftast afrakstur flókins ferlis og þróunar, fremur en einstakur atburður sem sprettur upp úr engu.

    Stigvaxandi nýsköpun

    Stigvaxandi er annað orð fyrir „hægt og sígandi“ og þetta form nýsköpunar er oftast í svo litlum skrefum að það er nánast ekki merkjanlegt.

    Dæmi um þetta eru nýjar uppfærslur á appi eða stýrikerfi eða ný útgáfa af snjallsíma.

    Nýsköpun er langoftast stigvaxandi nýsköpun – sem er svo yfirleitt alltaf, grunnurinn að róttækri nýsköpun.

    Röskun (e. disruption)

    Röskun er vel þekkt hugtak sem er orðið að samheiti yfir róttæka nýsköpun. Harvard-prófessorinn Clayton Christensen bjó hugtakið til árið 1995. Tveimur árum seinna gaf hann út bókina „The Innovator‘s Dilemma – When New Technologies Cause Great Firms to Fail“, þar sem fjallað er um hugtakið.

    Samkvæmt Christensen verður röskun þegar litlar, einfaldar afurðir koma inn á markaðinn í smáum stíl, verða stærri með tímanum og að lokum verða rótgróin fyrirtæki undir í samkeppninni

    Netflix er gott dæmi um röskun. Netflix byrjaði sem póstverslun fyrir kvikmyndaáhugamenn en breyttist í streymisveitu fyrir kvikmyndir og þáttaraðir og varð að raskandi afli, sem átti sinn þátt í endalokum myndbandaleiga eins og Blockbuster

    HVERS VEGNA ER NÝSKÖPUN SVONA MIKILVÆG?

    Í tímans rás hefur nýsköpun aftur og aftur breytt veröldinni. Nýtt hefur orðið til og það gamla fallið í gleymsku. Oftast verða breytingar í kjölfar nýsköpunar með litlum, lítið áberandi skrefum – en þær geta ekki síður umbylt samfélaginu á skömmum tíma. Þegar á heildina er litið hefur nýsköpun leitt til þróunar frá veiðimanna- og safnarasamfélaginu til landbúnaðar- iðn- og tæknibyltingar og í raun verið umbreytingaraflið að baki allri þróun, allt frá steinöxinni til ofurtölvunnar – og það hættir ekki þar. Í framtíðinni verður áfram
    þörf fyrir nýsköpun, af ýmsum ástæðum:

    – Leysa þarf ýmsar samfélags- og umhverfislegar áskoranir og vandamál

    – Koma þarf til móts við örar tæknibreytingar sem eru að umbylta öllu

    – Skapa þarf ný störf og viðhalda hagvexti

    – Pólitískum og samfélagslegum markmiðum þarf að ná fram

    ER ÖLL NÝSKÖPUN GÓÐ NÝSKÖPUN?

    Yfirleitt er talað um að til þess að um nýsköpun geti verið um að ræða, verði hún eingöngu að fela í sér
    jákvæð bein áhrif. Þrátt fyrir að „skapandi eyðilegging“ og „upplausn“ feli oft í sér að ákveðinn iðnaður
    leggist af og störf tapist, vegna nýsköpunar, hefur það löngum verið með þeim fyrirvara að það sem tapast verði bætt upp með einhverju betra, þó síðar verði. Fáir myndu t.d. vilja láta banna vélgröfur svo fleiri gæti fengið vinnu við að handmoka skurði osfrv.

    En hvað með óbein neikvæð áhrif nýsköpunar? Sagan hefur margoft sýnt að þrátt fyrir að uppfinningin
    og nýsköpunin sjálf, hafi bein jákvæð áhrif geti óbein neikvæð áhrif oft komið síðar í ljós. Notkun á
    jarðefnaeldsneyti og kolum sem knýr stóran hluta farartækja okkar og verksmiðja um allan heim eiga
    nú, bæði beint og óbeint, töluverða sök á hnattrænni hlýnun og komandi loftslagsbreytingum. Eftir því
    sem olía verður óaðgengilegri er gripið til harkalegri aðferða við að framleiða hana, oft með slæmum
    umhverfis- og heilsufarslegum áhrifum. Einnig er hægt að velta fyrir sér áhrifum samfélagsmiðla á einkalífið
    og sjálfsmynd fólks, hvaða áhrif gervigreind og tækni hafa fyrir atvinnulífið og atvinnu fólks osfrv.

    Hvernig er hægt að fá góða og gagnlega nýsköpunarhugmynd?

    Gott er að finna raunverulega þörf, vandamál eða áskoranir til að reyna að leysa í stað þess að reyna að koma bara með „með eitthvað nýtt“. „Vandamálin“ geta tengst þér persónulega, áhugamáli þínu eða nánasta umhverfi, samfélaginu, umhverfinu o.s.frv. Hægt er að reyna að laga og bæta eitthvað sem þegar er til; að endurvinna hluti, að nýta eitthvað sem er til með öðrum hætti en hefur verið gert og að tengja saman einhverja hluti eða þætti sem þegar eru til og búa þannig til eitthvað nýtt. Einhver/eitthvað þarf að geta notið góðs af hugmyndinni og þarf hún að vera framkvæmanleg. Best er að tengja áhugamál, þekkingu og reynslu við það vandamál sem þú vilt leysa. Ágætt er að spyrja sig – og svara – þessum spurningum:

    • Hvaða vandamál vilt þú leysa?
    • Hver er hugmyndin þín og hvernig virkar hún? 
    • Hverjir geta nýtt sér hugmyndina – fyrir hverja er hún?
    • Hversu auðvelt eða erfitt er að fullklára hugmyndina? Þarftu aðstoð við hana – og þá frá hverjum?

    Hér að neðan koma nokkrir punktar sem geta gefið þér hugmyndir um þörf eða vandamál sem hægt væri að leysa. Í Samfélagsleg Nýsköpun má fræðast um þætti sem tengjast samfélaginu og umhverfinu.

    Persónuleg reynsla og geta

    Hverjir eru þínir helstu styrkleikar, þekking og geta? Geturðu nýtt þessa þætti og/eða tengt þá við einhverja nýsköpunarhugmynd?

    Eru einhverjir erfiðleikar, vandamál eða annað sem tengist lífi þínu, áhugamálum þínum eða öðru sem þú myndir vilja leysa?

    Eru einhverjir erfiðleikar, vandamál eða annað sem tengist fjölskyldu þinni eða vinum sem þú myndir vilja leysa?

    Brennir þú fyrir einhverju málefni sem þú vilt taka þátt í að koma að umræðunni, leysa vandamál því tengdu og/eða byggja upp?

     

    Nærumhverfið

    Farðu í göngutúr um nágrennið. Hvað finnst þér vanta eða mætti laga?

    Er eitthvað á þínu heimili, vinnustað eða skóla, sem mætti bæta?

    Eru einhverjir hlutir sem þú notar, sem mætti laga/bæta?

    Vantar einhverju þjónustu eða annað í þínu nánasta umhverfi, sem til er annarsstaðar? Hefur þú séð eitthvað sniðugt, á ferðalagi þínu erlendis, sem ekki er til hér?

    Eru einhverjar vannýttar auðlindir í þínu nánasta umhverfi, sem hægt væri að gera eitthvað með?

    Samfélagið

    Hvaða samfélagslegu vandamál (Heilsa og velferð)eru til staðar? Er eitthvað sem þú hefur þekkingu á og vilt reyna að leysa?

    Renndu í gegnum fréttir og sjáðu hvaða vandamál aðrir einstaklingar eru að glíma við. Sérð þú lausn á einu þeirra?

    Renndu í gegnum Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Er einhver áskorun þar sem þú vilt taka þátt í að leysa?

    Miklar og örar breytingar eiga sér stað í samfélaginu vegna tækniframfara. Getur þú leyst vandamál því tengdu?

    Umhverfið

    Hvaða umhverfislegu vandamál, sem tengjast t.d. loftslagsmálum, mengun
    sjálfbærri orku og samgöngum, eru til staðar? Er eitthvað sem þú hefur þekkingu á og vilt reyna að leysa?

    Renndu í gegnum fréttir og sjáðu hvaða umhverfislegu vandamál eru til staðar. Sérð þú lausn á einu þeirra?

    Renndu í gegnum Heimsmarkmiðin. Er einhver áskorun þar sem þú vilt taka þátt í að leysa?

    Miklar og örar breytingar eiga sér stað í lífríkinu vegna hnattrænnar hlýnunar osfrv. Getur þú leyst vandamál því tengdu?

    Ertu ekki með neina hugmynd/vöru?

    Fimm leiðir til að finna hugmyndir

    1. Gömul hugmynd, ný nálgun

    Einbeittu þér að því að aðlaga eða þróa hugmynd sem þegar er til. Það gæti hugsanlega verið eitthvað sem ekki er til á svæðinu eða jafnvel landinu sem þú býrð í.

    2. Markaðstækifæri

    Þín eigin reynsla getur hjálpað þér að greina markaðstækifæri, til dæmis vöru eða þjónustu sem fólk hefur áhuga á en er ekki í boði sem stendur. Þetta markaðstækifæri gæti komið sem hugboð: „Ef þetta væri til þá myndu örugglega margir kaupa þetta“.

    3. Byggðu á eigin hæfileikum

    Þetta er líklega ein algengasta leiðin við að koma fram með nýsköpunarhugmynd og vinna að henni og endurspeglar hún kannski að einhverju leyti þörfina fyrir að vera sinn eigin herra og vera við stjórnvölinn. Kannski langar þig að vinna út frá þeim verkefnum sem þú ert þegar að fást við á þann hátt að þú sitjir í bílstjórasætinu í stað þess að vinna fyrir aðra.

    4. Gerðu það betur

    Oft gefast tækifæri til að koma inn á markað og ná viðskiptum frá þeim sem eru þar fyrir. Þú gætir mögulega gert það með því að bjóða ódýrara verð eða betri þjónustu en aðilarnir sem eru fyrir á markaðnum. Nýr rekstur getur einnig haft áhrif á það hvernig vörur og þjónusta er seld, t.d. með því að nota aðrar leiðir á borð við internetið

    5. Að finna upp nýja vöru

    Uppfinningar og nýjar vörur geta skilað mjög góðum árangri og vinsældir nýrrar vöru geta orðið mjög miklar á skömmum tíma. Að mörgu er þó að hyggja og vert er að hafa í huga einkaleyfi og höfundarrétt. Eins er vert að geta þess að vöruþróun getur verið dýrt og erfitt ferli, sérstaklega fyrir tæknilegar uppfinningar.

    Hugarflæðisaðferðir

    Hugarflug er notað þegar hópur er fenginn til að koma með sem flestar hugmyndir, burtséð frá gæðum þeirra. Það eru oft villtustu hugdetturnar sem kveikja frumlegustu hugmyndirnar.

    Opna-loka-aðferðin

    Opna-loka-aðferð Karin Dam er einfalt líkan sem hægt er að nota við smærri eða stærri áskoranir. Líkanið samanstendur af opnunarstigi þar sem áskorunin er kynnt og (margar) hugmyndir eru þróaðar til að leysa áskorunina. Þá fylgir yfirlit þar sem flokkun hugmynda á sér stað en næst er ferlið þrengt að lokunarstiginu með því að velja og móta viðeigandi og raunhæfar lausnir við áskoruninni

    ÁSKORUNIN: Stutt lýsing á áskoruninni eða vandamálinu sem á að leysa.

    OPNUNARSTIGIÐHér koma fram margar hugmyndir sem geta ef til vill leyst vandamálið. Hugmyndavinnan á að vera opin, ímyndunaraflið fær að leika lausum hala og engin hugmynd er of fáránleg eða vitlaus á þessu stigi. Hugrenningatengsl við aðrar hugmyndir verða til og gagnrýni á hugmyndir er bönnuð.

    YFIRLITSSTIGIÐ: Hér er rennt yfir allar hugmyndir, þær eru greindar og flokkaðar saman. Engri hugmynd er hent á þessi stigi og enn er gagnrýni bönnuð – ekki skal leggja mat á hugmyndir hér. Með þessu myndast yfirlit yfir áskorunina og lausnamöguleikana eftir flokkum.

    LOKUNARSTIGIÐHér er besta hugmyndin til að takast á við áskorunina valin og unnið áfram með hana. Gera þarf ýmsar prófanir og rannsóknir, t.d. frumgerðarsmíði og notendapróf (e. user testing) til að sjá hvort hugmyndin henti til að leysa áskorunina. Ef allt lítur vel út getur hugmyndin farið yfir á aðgerðastigið. Oft skjóta nýjar lausnir eða jafnvel nýjar áskoranir upp kollinum í gegnum allt ferlið og þá er farið á opnunarstigið á ný. Þetta ferli getur endurtekið sig oft.

    AÐGERÐIR: Hafinn er nauðsynlegur undirbúningur þess að hugmyndin getið orðið að veruleika og aðgerðaráætlun er útbúin. Hluti af þeim undirbúningi er að greina væntanlegan markað og markhóp, hugsanlega samkeppni og dreifileiðir, útbúa fjárhagsáætlun og leita hugsanlegra samstarfsaðila. Þessari vinnu lýkur með viðskipaáætlun og nánari kynningu á hugmyndinni og þetta tvennt er góður grunnur að fyrstu styrkumsóknunum.

    Þankahríð og þankaskrift (e. brainwriting)

    Grunnhugmyndin að þankahríð er að nýjar hugmyndir geti kviknað hjá fólki með því að hlusta á aðra en eitt grundvallarmarkmiða þannig hugarflugsfundar, er að ná fram keðjuverkandi samspili og hugmyndasköpun allra þátttakenda. Í mörgum tilfellum hentar þessi aðferð vel en þó á hún alls ekki alltaf við. Fólk er misjafnlega reiðubúið til að tala og segja frá hugmyndum sínum á svona fundum, þankahríðinni þarf að stýra markvisst til að hún gangi vel fyrir sig og það er bara einn sem getur talað í einu – ef einhver einn einstaklingur yfirgnæfir fundinn komast aðrir hreinlega ekki að. Því geta svona fundir endað með fáum hugmyndum og/eða litlum árangri.

    Þankaskriftin gengur hins vegar út á það að allir geti skrifað niður hugmyndir sínar í einu. Hver þátttakandi eða hópur skrifar hugmyndir sínar niður á blað sem gengur svo til annarra sem bæta sínum hugmyndum við. Þannig hafa allir þátttakendur jafna möguleika á að koma hugmyndum sínum á framfæri og þær verða því oft fleiri en í þankahríðinni.

    Ein útgáfa af þankaskrift er „6-3-5-þankaskrift“. Hún gengur út á að þrjár hugmyndir eru skrifaðar niður á fimm mínútum, síðan er blaðið sent áfram og þetta gert aftur. Þetta er endurtekið sex sinnum. Í tuttugu manna hópi verða á þennan hátt til 360 hugmyndir á hálftíma og mikilvægast af öllu er að síðustu hugmyndirnar sem verða til hafa ákveðna dýpt því sex manneskjur hafa átt sinn þátt í að búa þær til.

    Síðan þarf bara að velja á milli þeirra.

    Val á hugmyndum

    Þegar margar hugmyndir hafa komið fram verður að lokum að velja eina og einbeita sér að henni. Hægt er að nýta einhverja þætti úr öðrum hugmyndum en hér er aðferð til að aðstoða við valið.

    1. Byrjað er á að forgangsraða hugmyndunum þannig að sú sem talin er vænlegust sé fremst. Síðan sú næstbesta, þriðja besta og svo framvegis …

    2. Fyrir hverja einstaka hugmynd skal huga að þeim auðlindum og þáttum sem þurfa að vera til staðar til að þróa hugmyndina, framleiða eða koma henni í framkvæmd. Síðan þarf að fylla út blað eins og það sem er hér fyrir neðan, skipt upp eftir litum, og skrifa þættina í kassana: Grænt (Auðvelt í framkvæmd), blátt (Sérfræðiaðstoð þarf til) og rautt (Mjög erfitt að framkvæma).

    3. Að lokum er valin sú hugmynd þar sem græni liturinn kemur oftast fyrir, blái einstaka sinnum en aldrei sá rauði.

    Einnig er hægt að nota töfluna úr „Leiðarvísi fyrir frumkvöðla“, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands gaf út, til að leggja mat á hugmyndir. Því fleiri stig sem hugmyndin fær, því meiri ástæða er að fara af stað með hana. Athugið þó að flokkarnir hafa mismikið vægi eftir hugmyndum; þó svo að hugmyndin sé algerlega brilliant, fái mörg stig og þar fram eftir götunum getur verið erfitt eða jafnvel vonlaust að fara af stað með hana. Það getur t.d. verið vonlaust fyrir þig að framkvæma hana, hún gæti kostað 150+ milljarða í stofnkostnað o.s.frv.

      Eitt gríðarlega mikilvægt atriði

      Þegar búið er að velja hugmynd – eða á meðan valinu stendur – skaltu athuga hvort einhver sé með einkaleyfi, hönnunarvernd eða önnur réttindi/leyfi fyrir hugmyndinni eða annarri mjög svipaðri. Ef svo er skaltu athuga hvort þú getir breytt hugmyndinni það mikið að þú komir fram með nýjung. Ef þú getur það ekki skaltu velja aðra hugmynd. Það sparar þér tíma og pening, þ.e. að fara ekki af stað með hugmynd sem þú hefur svo ekki leyfi til að klára eða framkvæma. Munum líka að það er aaaallls ekki kúl að stela hugmynd eða hönnun annarra.

      Hönnunarhugsun (e. Design Thinking)

      Hönnunarhugsun er aðferð þar sem við notum aðferðir á skapandi hátt til að nálgast vandamál, safna saman upplýsingum og spyrja gagnrýnna spurninga til að leita að nýrri eða betri lausn.

      Hægt er að skipta hönnunarhugsun upp í 5 stig eða þrep:

      Stig 1: Samkennd – Rannsakaðu þarfir notenda þinna

      Hér þarft þú að öðlast hluttekningu á vandamálinu sem þú ert að reyna að leysa, það er að reyna að setja þig í spor væntanlegra notenda. Samkennd er lykilatriði fyrir mannlegt hönnunarferli, rétt eins og hönnunarhugsun, því hún gerir þér kleift að leggja til hliðar þínar eigin forsendur eða sýn á vandamálið og lausnina og fá raunverulega innsýn í þarfir notendanna.

      Stig 2: Þarfir – Tilgreindu þarfir og vandamál notenda þinna

      Það er kominn tími til að safna saman þeim upplýsingum sem safnað er á samkenndarstiginu. Þú greinir síðan athuganir þínar og notar þær til að skilgreina kjarnavandamálin sem þú og teymið þitt hafið greint. Þessar skilgreiningar eru nokkurs konar „vandamálastaðhæfingar“.

      Stig 3: Hugmynd – ögraðu forsendum og komdu fram með hugmyndir

      Nú er mál að búa til hugmyndir. Traustur bakgrunnur þekkingar frá fyrstu tveimur stigunum þýðir að þú getur byrjað að „hugsa út fyrir rammann“, leitað að öðrum leiðum til að skoða vandamálið og greint nýstárlegar lausnir við því. Aðferðir eins og hugarflug, Opna/lokaferðin o.fl. eru sérstaklega gagnlegar hér.

      Stig 4: Frumgerð – Byrjaðu að þróa lausnir

      Þetta er tilraunaáfangi. Markmiðið er að bera kennsl á bestu mögulegu lausnina fyrir hvert vandamál sem finnst. Teymið þitt ætti að búa til nokkrar ódýrar prufuútgáfur af vörunni (eða sérstaka eiginleika sem varan býr yfir) til að prófa hugmyndirnar sem þú hefur búið til. Þetta gæti falið í sér að búa til prótýpur t.d. úr pappa, leir, legókubbum o.s.frv.

      Stig 5: Prófun – prófaðu lausnirnar

      Fáðu notendur til að prófa frumgerðirnar. Þótt þetta sé lokaáfanginn í hönnunarhugsuninni er hægt að margendurtaka ferlið: Notaðu niðurstöðurnar til að endurskilgreina vandamálin og athuga hvort og þá hvað megi endurbæta. Síðan þú getur farið aftur í fyrri stig til að gera frekari breytingar og betrumbætur – til að finna eða útiloka aðrar lausnir.

      Hér er flott síða með ýmsu náms- og stuðningsefni, fyrir hönnunarhugsun: https://dschool.stanford.edu/resources

       

      Til útprentunar. Fyrstu 4 stig Opna/loka aðferðarinnar. Fínt að prenta þetta út í A3 og nota litla Post-it miða til að skrifa á, setja inn í, raða saman, taka út o.s.frv. Hægt er að panta heimsókn í skólann þar sem stutt kynning fer fram á þessu og láta nemendur byrja að vinna í skjalinu: Panta heimsókn

      Til útprentunar. Fyrstu 4 stig Opna/loka aðferðarinnar. Til útprentunar í A4. Hægt er að skrifa inn í skjalið.

      Hugmyndaraminn. Til útprentunar. Næstu skref í hugmyndavinnunni. Fínt að prenta þetta út í A3. Gott að nota litla Post-it miða í fyrstu umferð. Hægt er að panta heimsókn í skólann þar sem stutt kynning fer fram á þessu og láta nemendur byrja að vinna í skjalinu: Panta heimsókn í skólann

      Hugmyndaraminn. Til útprentunar í A4. Hægt er að skrifa inn í skjalið.

      Á að deila hugmyndum sínum?

      Hugmyndir dafna ekkert sérlega vel í einangrun – þær dafna best þegar þeim er deilt. Þegar fólk segir frá hugmyndum sínum fær það oft nýja sýn á þær og

      þegar annað fólk fær að velta þeim fyrir sér og koma með tillögur að útfærslu á þeim, spretta oft fram aðrar hugmyndir eða lausnir sem eru einfaldlega betri

      en þær upphaflegu.

      Um leið er þó mikilvægt að passa upp á eigið forskot. Sum fyrirtæki gera þetta með því að halda hugmynd sinni algerlega leyndri en önnur nýta sér hugverkaréttindi eins og einkaleyfi, hönnunarvernd eða skráð vörumerki.

      Lokuð nýsköpun

      Lokuð nýsköpun á sér stað í fyrirtækjum sem hafa miklu að tapa ef uppfinning þeirra lekur út. Þetta er dæmigert fyrir iðnað með mikinn þróunarkostnað en lítinn framleiðslukostnað, til dæmis innan lyfja- og vopnaiðnaðarins, upplýsingatæknigeirans og í öðrum tæknifyrirtækjum.
      Einkaleyfi og skrásett vörumerki eru líka leiðir til að tryggja sig gegn eftirhermum. Það er erfitt og dýrt að fá einkaleyfi þannig að viðkomandi verður að vera viss um að fá fjárfestinguna til baka. Einkaleyfi er þó eignarréttur og getur átt stóran þátt í því að auka verðmæti fyrirtækis.

      Opin nýsköpun

      Fyrir flesta „litla“ frumkvöðla er opin nýsköpun mjög vænlegur kostur. Engin manneskja getur verið sérfræðingur í öllu og því er nauðsynlegt að fá aðstoð frá öðrum sem vita betur og segja frá hugmyndinni.
      Ekki er nauðsynlegt að segja frá öllum smáatriðum í sambandi við hugmyndina og hægt er að vera hreinskilinn og segja bara að sumum atriðum viljir þú halda út af fyrir þig. Einnig er hægt að láta viðkomandi skrifa undir svokallaðan leyndarsamning þar sem viðkomandi er bannað að segja frá hugmyndinni, nýta hana á einhvern hátt 
      einhvern hátt o.s.frv. (sjá „Leyndarsamningur“ að neðan)

      Ýmislegt efni úr Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Það nýtist vel þó fyrir kennara framhaldsskólanna – sem og aðra – sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpunar- eða hugmyndavinnunni.

      Nokkrar rafrænar námsbækur úr Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

      Ýmsir tenglar sem tengjast nýsköpun

      sem tengist nýsköpun, forritun, vísindum o.fl.
      sem tengist nýsköpun, forritun, vísindum o.fl.
      sem tengist nýsköpun, forritun, vísindum o.fl.