Viðskiptalíkan, viðskiptaáætlun og stefnumótun

Efnisyfirlit síðu

    Viðskiptalíkan, viðskiptaáætlun og stefnumótun

    Viðskiptaáætlun vs. Viðskiptalíkan

    Lýsing á viðskiptalíkani

    Viðskiptastrammi – Business Model Canvas

    Til hvers að nota Strammann?

    Lean  Canvas

    Viðskiptaáætlun

    Innihald viðskiptaáætlana

    Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga við gerð viðskiptaáætlunar

    Örviðskiptaáætlun

    Innihald örviðskiptaáætlana

    Stefnumótun: Stefna, framtíðarsýn, hlutverk og gildi

    Dæmi: hlutverk, sýn, gildi og markmið stjórnvísi

    Ýmsir tenglar og náms- og/eða stuðningsefni sem tengjast ofangreindu efni

      Viðskiptaáætlun og viðskiptalíkan

      Talsverður munur er á viðskiptaáætlun og viðskiptalíkani þrátt fyrir að orðin séu lík.

      Viðskiptaáætlun inniheldur vel uppsetta samantekt, lýsingu á viðskiptahugmyndinni, upplýsingar um vöruna, stjórnun og skipulag, markaðinn og samkeppnina, markaðsstefnu og áætlun og hvernig fjármálum verði háttað.

      Viðskiptalíkan má segja að sé heildarrammi fyrirtækisins sem sýnir kjarnastarfsemi þess, frá vöru til viðskiptavina. Viðskiptalíkanið dregur fram samhengi hlutana og hvernig tekjur fyrirtækisins verða til.

      Að hugsa upp nýtt viðskiptalíkan fyrir vöru sem þegar er til er í sjálfu sér líka nýsköpun þar sem fundnar eru upp nýjar leiðir til tekjuöflunar með vörum eða þjónustu fyrirtækisins Fyrir árið 2010 þurfti til dæmis að kaupa Microsoft Office-pakkann. Mörgum þótti leyfið nokkuð dýrt og margir afrituðu því pakkann ólöglega. Með nýju viðskiptalíkani hafa allir ókeypis aðgang að grunnhluta pakkans en tekjur koma inn með möguleika viðskiptavinanna á að kaupa fullan aðgang og geymslupláss á „skýi“, fyrir mánaðarlega greiðslu osfrv.

      Streymisveitur eru líka gott dæmi um nýtt viðskiptalíkan þar sem leigutekjum fyrir hverja mynd hefur verið skipt út fyrir mánaðarleg áskriftargjöld.

      Lýsing á viðskiptalíkani

      Þegar viðskiptalíkani er lýst er það yfirleitt einföld uppsetning með einhvers konar yfirliti eða skýringarmynd.  Oftast nær það ekki yfir meira en eina blaðsíðu.

      Mikilvægt er að geta útskýrt viðskiptalíkanið vel fyrir væntanlegum fjárfestum, fyrir bönkum ef hugað er að lánum en einnig fyrir sjálfum manni og samstarfsfélögum svo allir gangi í takt í fyrirtækinu Hér eru sex dæmi um viðskiptalíkön:

      1. Fyrirtækið selur vöru til neytanda. Fyrirtækið keypti hluti í vöruna fyrir lága upphæð hjá söluaðila og notaði þá til framleiðslu á vörunni.

      2. Fyrirtækið lætur neytandann nota vöruna án þess að borga en í staðinn er sýndur fjöldi auglýsinga í tengslum við notkunina. Önnur fyrirtæki borga fyrir sínar auglýsingar.

      3. Fyrirtækið á höfundarréttinn að tækni sem önnur fyrirtæki vilja nota. Þau borga afnotagjald fyrir hvert skipti sem þau nota tæknina eða fyrir ákveðið tímabil.

      4. Fyrirtækið selur, leigir eða gefur neytanda vél eða tæki, en fyrirtækið sér um viðhald og þjónustu á vélinni og selur viðhaldsvörur til neytandans.

      5. Fyrirtækið selur vöru fyrir hönd annars fyrirtækis og fær hluta af söluágóðanum (umboðslaun) fyrir sitt framlag.

      6. Fyrirtækið hefur þróað hugbúnað sem það selur sem vefþjónustu (Software as a Service) og greitt er fyrir mánaðarlega áskrift. Ákveðnar aðgerðir eru ókeypis(Freemium).

      Viðskiptastrammi – Business Model Canvas 

      Eitt algengasta form viðskiptalíkans er „Business Model Canvas“ sem Alexander Osterwalder þróaði. 

      Þar er miðjureiturinn, „Virðistilboð“, grunnurinn að starfsemi fyrirtækisins, þ.e. hvaða vörur/þjónustu er verið að selja, hver er nýjungin og hvernig getur varan/þjónustan uppfyllt þarfir viðskiptavinarins.

      Til hægri við miðjureitinn eru þrír reitir sem allir snúa að viðskiptavinunum, þ.e. hverjir þeir eru, hvernig hægt er að ná til þeirra og hvar þeir geta keypt vöruna okkar. Þar fyrir neðan er reitur þar sem sýnt er hvar og hvernig tekjur fyrirtækisins koma inn. Með öðrum orðum, hægri helmingur strammans sýnir tekjuhlið fyrirtækisins.

      Á vinstri helmingnum eru sýndar þær aðgerðir sem gera fyrirtækinu kleift að bjóða upp á vöruna/þjónustuna til viðskiptavina. Þær sýna meginstarfsemi fyrirtækisins, lykilauðlindir sem það ræður yfir og helstu samstarfsaðila. Kostnaðardálkurinn sýnir helstu kostnaðarliðina sem falla til við reksturinn. Með öðrum orðum, vinstri helmingur strammans sýnir kostnaðarhlið fyrirtækisins.

      Það er svo ósköp einfalt, að til langtíma þurfa tekjurnar að vega upp á móti kostnaðinum til að fyrirtækið haldi velli.

      Til hvers að nota strammann?

      • Dregur fram lykilatriði í viðskiptalíkaninu og sýnir tengsl þeirra á myndrænan hátt
      • “Er einskonar „strigi“ til að mála viðskiptahugmyndina á – ekki alveg eftir númerum en eftir forskrift – hugað að öllu og sett í samhengi” (Hannes Ottóson)
      • Hægt að skoða alla þætti saman í einu
      • Hægt að stilla upp á stuttum tíma
      • Góð aðferð til að vinna saman í hóp að því að forma hugmyndina
      • Skapar umræðu á hugmyndastigi
      • Punktarnir nýtast til að skrifa viðskiptaáætlun
      • Góður eða mikilvægur undanfari viðskiptaáætlunar

      Lean  Canvas 

      Annað afbrigði af viðskiptarammanum, er Lean Canvasin, sem Ash Maurya þróaði út frá Business Model Canvas. Lean canvasinn hentar sérstaklega vel til að finna og koma fram með viðskiptahugmynd. Við mælum með þessu fyrir framhaldsskólana og frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref.

       

      Skref 1: Vandamál. Hvaða vandamál á varan þín að leysa? Hversu algengt er þetta vandamál, hversu margir glíma við það? Hversu mikið væri fólk tilbúið að borga til að leysa það?

       Skref 2: Lausn. Lausn. Hvaða þrjá helstu eiginleika, sem vinna að lausn vandans, hefur varan þín? Eru önnur fyrirtæki/vörur til staðar með svipaða lausn?

       Skref 3: Lykilatriði. Hvaða mælikvarða getur þú notað til að ákvarða hvort varan „virki rétt“ og fyrirtæki þitt nái árangri? Helstu mælikvarðar þínir geta verið blanda af ýmiss konar talnagögnum, sölutekjum og mælingu á ánægju viðskiptavina.

       Skref 4: Kostnaðaruppbygging. Skráðu allan rekstrarkostnað hér. Hver er kostnaðurinn við kaup viðskiptavina? Hvað um dreifingarkostnað? Finndu lykilaðila í verkefninu þínu og listaðu upp kostnað vegna hugsanlegra birgja eða framleiðslu, flutninga og þess háttar, til að draga fram raunverulegan rekstrarkostnað.

      Skref 5: Sérstakt virðistilboð. Hverjir eru aðgreinandi þættir vörunnar þinnar, þ.e. hver er nýjungin? Hversu mikil er samkeppnin og hvernig aðgreinir þú þína vöru frá samkeppnisaðilum?

      Skref 6: Samkeppnisforskot. Hvernig getur þú tryggt að ekki sé hægt að „afrita“ vöru þína eða þjónustu? Hvaða skref ertu að taka til að tryggja að þú haldir samkeppnisforskoti?

      Skref 7: Viðskiptavinir/markhópur. Hvernig er varan/lausnin þín, að uppfylla þörf markhópsins? Í þessu skrefi er mikilvægt að hlusta á viðskiptavinina og athuga hvort – og þá hvernig – þú getur aðlagað vöruna þannig að hún uppfylli þarfir viðskiptavina betur.

      Skref 8: Samskipti. Hvaða leiðir þarftu að nota til að ná til viðskiptavina? Samfélagsmiðla, útvarp/sjónvarp, auglýsingaskilti o.s.frv.

      Skref 9: Tekjustreymi. Hvert er tekjumódelið þitt, þ.e. hvernig aflar fyrirtækið tekna? Hversu há er framlegðin osfrv.

      Skref 10: Yfirferð. Líttu með gagnrýnum augum yfir strammann og athugaðu í sameiningu við aðra hvort þú sjáir einhverja veikleika, sem hægt er að bæta/breyta og styrkleika sem þú getur nýtt þér með betri hætti.

      Viðskiptaáætlun

      Lykillinn að því að koma fyrirtæki á fót er áætlanagerð og fyrsta og mikilvægasta skrefið í henni er að gera góða viðskiptaáætlun fyrir fyrirtækið sem þú hyggst stofna. Í viðskiptaáætlun lýsir þú helstu þáttum hugmyndarinnar og setur fram skýr markmið um starfsemina. Einnig er viðskiptaáætlunin mikilvæg því hún neyðir þig til að reikna dæmið til enda og getur því forðað þér frá að gera afdrifarík mistök sem geta gerst ef lagt er upp með illa ígrundaða viðskiptahugmynd.

      Áður en þú og hugsanlegir fjárfestar takið fjárhagslega áhættu, er mikilvægt að allir aðilar séu vissir um að þú vitir hvað þú ert að gera, áætlanir þínar séu vel ígrundaðar og að þú getir brugðist við þeim vanda sem kann að koma upp. Vel unnin viðskiptaáætlun svarar flestum þessum spurningum og skapar traust fjárfesta í þinn garð. Viðskiptaáætlunin er þitt helsta tæki til að leggja grunn að framtíð fyrirtækisins og til að til dæmis að fá lánaða peninga í banka, finna fjárfesta, sækja um styrki og til að finna viðskiptafélaga.

      Kosturinn við að gera reglulega viðskiptaáætlun, er að þannig er tryggt að vandlega sé farið í saumana á rekstri fyrirtækisins, kostir og gallar eru dregnir fram og mörkuð eru skil í rekstrinum. Mismunandi skoðanir eru þó um mikilvægi langrar og ítarlegrar viðskiptaáætlunar. Sumir álíta hana nauðsynlegt innra stjórnunarverkfæri en aðrir segja að viðskiptaáætlun úreldist í raun um leið og búið er að gera hana og að erfitt eða vonlaust sé fyrir frumkvöðlafyrirtæki að geta gert nokkurra ára áætlanir fram í tímann.

      „Góð gamaldags“ viðskiptaáætlun er venjulega 20-30 bls. löng skýrsla með mörgum smáatriðum um fyrirtækið en nú eru margir farnir að nota ör-viðskiptaáætlun sem er að hámarki 10 blaðsíður. Aðeins nýtískulegri útgáfa er svokallað „slide deck“ en það eru aðeins örfáar síður (til dæmis í Power Point), sem stöðugt skal uppfæra.

      Innihald viðskiptaáætlana er mismunandi meðan efnistökin eru yfirleitt þau sömu. Hér að neðan eru punktar fyrir “venjulega” viðskiptaáætlun – athugið að óþarfi er að tína allt þetta til, í örviðskiptaáætlunni.

      Grunnupplýsingar

      Grunnupplýsingar um forsvarsmann fyrirtækisins, svo sem upplýsingar um menntun og reynslu sem nýtist við rekstur fyrirtækisins ættu að koma fram í upphafi viðskiptaáætlunarinnar.

      Heiti verkefnis og á hvaða formi verður það rekið. Staðsetning, starfsemi og slíkar upplýsingar.

      Samantekt

      Lykilatriði úr hverjum kafla fyrir sig birtast í samantektinni og því er eðlilegast að vinna hana þegar vinnslu annarra kafla er lokið. Samantektin þarf að vera hnitmiðuð og gefa glögga mynd af viðskiptaáætluninni í heild; þar þarf að gera öllum megin þáttum áætlunarinnar skil, lýsa þörf fyrir vöru/þjónustu og hvernig á að uppfylla þörfina.

      Koma þarf fram hver áætlaður markaður er og hvernig varan er í samanburði við aðra á markaði. Einnig að gera grein fyrir því hver áætlaður stofnkostnaður er og því hvernig fjármögnun verður háttað. Niðurstöður rekstraráætlunarinnar gjarnan settar fram í töflu, þar sem fram koma tekjur, kostnaður og rekstrarniðurstaða.

      Samantektin er í raun sölusíða viðskiptaáætlunarinnar sjálfrar. Hún þarf strax í upphafi að vekja áhuga lesandans. Þar á eftir koma mikilvægustu atriði viðskiptaáætlunarinnar sjálfrar og í lok samantektarinnar þarf að benda á hvað viðskiptatækifærið er álitlegt.

      Hafa skal í huga að lesendur viðskiptaáætlunarinnar munu í einhverjum tilfellum eingöngu lesa samantektina. Samantektin ætti ekki að vera meira en ein blaðsíða að lengd.

      Lýsing á viðskiptahugmyndinni

      Hér skal lýsa hvaða þörfum viðkomandi vara eða þjónusta er ætlað að mæta eða hvað tækifæri viðskiptahugmyndinni er ætlað að grípa. Einnig er hér sagt frá viðskiptahugmyndinni og megintilgangi hennar í örfáum setningum.

       – Hver er söluvaran, helstu eiginleikar hennar og sérstaða.

       – Hvernig uppfyllir varan þarfir viðskiptavinarins og skapar fyrirtækinu sérhæfingu og samkeppnisforskot? Hvernig er þörfinni sinnt núna?

      Virði fyrir viðskiptavin getur m.a. verið fólgið í nýjungum , bættri virkni, lágu verði, betri gæðum, einföldu notendaviðmóti, góðri hönnun og sterkri ímynd.

      Lýstu vörunni á einfaldan hátt svo a’ aðrir sem ekki þekkja til skilji um hvað verið er að ræða, t.d. fjöldi vöruflokka, eiginleikar og/eða sérstaða hvers vöruflokks.

      Markaðurinn og samkeppnin

       séiHér þarf að koma fram stærð markaðar, verð og þróun, álit viðskiptavina á eiginleikum vöru, mögulegar dreifileiðir, kauphegðun á markaði, skoðun á samkeppnisaðilum osfrv. 

      Upplýsingaöflun getur verið með ýmsu móti. Skoðun fyrirliggjandi gagna getur verið árangursrík, s.s. sölutalna, þróun markaðar og ýmissa hagstærða. Upplýsingum má jafnframt safna með því að leggja spurningar fyrir tiltekinn markhóp eða gera formlega markaðsrannsókn. Upplýsingaöflun getur einnig falist í að kanna stærð markaðar, verð og þróun, álit viðskiptavina á eiginleikum vöru, mögulegar dreifileiðir, kauphegðun á markaði og skoðun á samkeppnisaðilum

      Fyrirtækjagreining gengur út á að kanna núverandi aðstæður á markaði fyrir vöruna, stærð markaðar og einkenni. Hver líkleg þróun sé á markaðnum, hvort hann sé í vexti eða hnignun. Hvort einhverjar breytingar hafa nýverið orðið, t.d. varðandi kauphegðun, vöruþróun eða nýjungar.
      Skoða þarf hvort einhverjir þættir í efnahags- eða stjórnsýsluumhverfinu séu líklegir til að hafa áhrif á markaðinn í náinni framtíð.

      Markhópagreining er aðferð sem skiptir viðskiptavinum í hópa t.d. landfræðilega, lýðfræðilega, eftir einstaklingseinkennum eða kaupvenjum.


      Mikilvægt er að fram komi hverjir væntanlegir markhópar séu, en þeir geta verið mismunandi eftir ólíkum vörum fyrirtækisins. Lýsa þarf einkennum valdra markhópa og hvernig megi ná til viðkomandi hóps. Hvar búa viðskiptavinirnir? Hverjar eru kaupvenjur helstu viðskiptavina og hvernig mun fyrirtækið koma til móts við þær? Hvert verður megin markaðssvæði fyrirtækisins? Þegar fyrirtæki hefur skilgreint hvaða markað verði stefnt á, þarf að taka afstöðu til þess hvernig á að standa að markaðssetningu.

      Verð: Út frá hverju er verð vörunnar fundið? Er það út frá verði samkeppnisaðila, út frá kostnaði, eða út frá því hvað viðskiptavinurinn er tilbúinn að borga? Verður verðlagning mismunandi eftir árstíðum? Á að bjóða ákveðnum hópum sérkjör? Hvernig verður greitt fyrir vöruna?

      Dreifileiðir: Hvernig verður vörunni dreift til viðskiptavina? Ætlar fyrirtækið að selja beint til viðskiptavina, gegnum smásala (verslanir), eða í gegnum aðra milliliði? Er varan eingöngu seld á netinu? Ef fyrirtækið ætlar að selja beint til viðskiptavina er mikilvægt að horfa vel til staðsetningar og hvernig hún passar viðskiptavinum.

      Kynningarstefna: Huga þarf að því á hvern hátt upplýsingum er best komið til markhópsins. Ákveða þarf hvaða miðlar verði nýttir, t.d. dagblöð, sjónvarp eða samfélagsmiðlar og hvaða leiðum verði beitt, t.d. auglýsingum, markpósti, vefsvæði, samfélagsmiðlum eða beinum samskiptum. Hægt er að útbúa birtingaáætlun en þar er, með skipulögðum hætti, sett niður áætlun um birtingu kynningarefnis, auglýsinga, sýningaþátttöku og annað það sem lýtur að sýnileika fyrirtækisins.

      Markaðs- og söluáætlun: Allar upplýsingar sem unnið er með í þessum markaðskafla eiga að skila sér í markaðsáætlun. Þar að auki þarf að setja fram forsendur um selt magn í einingum á ákveðnu tímabili, söluverð og þróun sölu innan tímabilsins, á skýran og vel rökstuddan hátt. Söluáætlun miðast við sama tímabil og fjárhagsáætlanir. Gott getur verið að setja söluáætlun upp í töflu þar sem tímabil eru skilgreind á sama hátt og gert er í fjárhagsáætlun. Söluáætlun verður síðan hornsteinn rekstraráætlunar og áætlunar um sjóðstreymi.


      Samkeppni: Öll fyrirtæki keppa á einn eða annan hátt. Fyrirtækið getur verið með ákveðna, beina samkeppnisaðila eða það getur verið með það hvernig viðskiptavinir hafa verið að gera hlutina í langan tíma. Þegar þú þekkir samkeppnina skaltu greina hver annar veitir þjónustu til að leysa sama vandamál og fyrirtækið reynir að takast á við. Hver er kostur fyrirtækisins umfram þessara keppinauta? Hvernig mun rödd fyrirtækisins heyrast fyrir hávaða samkeppnisaðila? Stundum inniheldur viðskiptaáætlun fylki af eiginleikum og ber saman hvernig hvert fyrirtæki býður upp á eða býður ekki upp á þá eiginleika. Þessi hluti endurspeglar hvernig lausn fyrirtækisins er önnur og hentar betur fyrir þann markamark sem er greindur samanborið við samkeppni.

      Hér getið þið notað upplýsingar úr Markaðs- og samkeppnisgreiningunni og Viðskiptavinir

      Markaðs-, sölu- og framkvæmdaráætlun

      Markaðsáætlun
       – Út frá hverju er verð vörunnar fundið? Er það út frá verði samkeppnisaðila, út frá kostnaði sem fellur til við framleiðslu og/eða umsýslu hennar, eða út frá því hvað viðskiptavinurinn er tilbúinn til að borga?  Verður verðlagning mismunandi eftir árstíðum? Á að bjóða ákveðnum hópum sérkjör? Greiðsluskilmálar? Hvernig verður greitt fyrir vöruna?

       – Hvernig verður vörunni dreift til viðskiptavina? Beint til viðskiptavina, gegnum smásala (verslanir), eða í gegnum aðra milliliði?

       – Hver verður auglýsinga- og kynningarstefna fyrirtækisins? Hvaða leiðir verða nýttar til að ná til viðskiptavinanna (auglýsingar, markpóstur, heimasíða, bein samskipti mann á mann, o.s.frv.)?

       – Birtingaáætlun Hér er með skipulögðum hætti sett niður áætlun um birtingu kynningarefnis, auglýsinga, sýningaþátttöku og annað það sem lýtur að sýnileika fyrirtækisins. Greinargóð birtingaáætlun með tímasetningum og kostnaðaráætlun eykur líkur á árangri í markaðssetningu.

      Söluáætlun og markmiðasetning

       – Markmiðasetning: Markmið þurfa að vera tímasett, aðgerðatengd og mælanleg til að á ákveðnum tímapunktum sé hægt að meta árangur.
      o Skammtímamarkmið – Skemmri en til 12 mánaða.
      Dæmi: Framleiðsluaðstaða fyrir starfsemina verði tilbúin fyrir 1. sept. 2011.
      Dæmi: Fyrstu vörur úr vöruflokki A verði komnar í sölu í þrjár verslanir 1. des. 2011.
      o Langtímamarkmið – Markmið um þróun til lengri tíma (2-5 ár).
      Dæmi: Að heildarvelta vaxi að lágmarki um 30% milli áranna 2012 og 2013, með tilkomu tveggja nýrra vöruflokka.
      Dæmi: Að starfsemin standi undir tveimur ársverkum á árinu 2013.

       – Söluáætlun: Setja þarf fram forsendur um selt magn í einingum á ákveðnu tímabili, söluverð og þróun sölu innan tímabilsins, á skýran og vel rökstuddan hátt. Söluáætlun miðast við sama tímabil og fjárhagsáætlanir. Eðlilegast er að setja söluáætlun upp í töfluformi fyrir skilgreind tímabil (mánuðir, ársfjórðungar eða ár, sjá töflu ). Söluáætlun verður síðan hornsteinn rekstraráætlunar og áætlunar um sjóðstreymi.

      Framkvæmdaáætlun

       – Framkvæmdaáætlun inniheldur nánari útlistun á því hvaða verk þarf að vinna til þess að starfsemin geti farið af stað og vara/þjónusta fari á markað? Setja þarf upp raunhæft mat á því hversu langan tíma það tekur að inna af hendi einstök verk. Ef verkefnið er mjög fjölþætt er eðlilegt að draga út mikilvægustu þættina hér (sjá dæmi um uppsetningu og verkþætti í töflu hér að neðan), en sýna sundurliðaða framkvæmdaáætlun í fylgiskjali.

      Fyrirtækið sjálft

      – Heiti og form: Hvert er heiti verkefnisins/fyrirtækisins og á hvaða formi verður það rekið (einstaklingsfyrirtæki, einkahlutafélag, o.s.frv.)?

       – Núverandi staða: Hver er staða fyrirtækisins í dag, hvaða áföngum hefur verið náð, er þetta nýtt fyrirtæki um þessa viðskiptahugmynd, eða tengist þetta starfsemi starfandi fyrirtækis og ef svo er hver er hún og helstu einkenni hennar?

       – Staðsetning og starfsemi: Hvar verður starfsemin staðsett? Hvað þarf til (aðstaða, starfsfólk, sérþekking). Hvaða kröfur eru gerðar til starfseminnar t.d. varðandi leyfi (t.d. rekstrarleyfi)?

       – Hver er forsvarsmaður fyrirtækisins (vísað í ferilskrá/fylgiskjal ef við á), eigendur, helstu samstarfsmenn og/eða ráðgjafar (ef einhverjir)? Dragið fram alla þá hæfni og þekkingu sem starfsfólk/teymið að baki hugmyndinni, býrúa yfir og getura/munu gagnast viðskiptahugmyndinni.

       – Einkaleyfi? Hönnunarvernd? Kvótaeign? Hér dragið þið fram allt það sem skapar fyrirtækinu, samkeppnisforskot.

       – Stjórnun: Hver er verkaskiptingin milli stjórnenda fyrirtækisins?. Ath:. Þetta á ekki endilega við þegar um smærri verkefni er að ræða.

      – Hver er stefna, framtíðarsýn, hlutverk og gildi fyrirtækisins?

      Fjárhagslegir útreikningar

      Hvernig koma tekjurnar inn? Tekjur fyrirtækisins geta skilað sér með ýmsum hætti. Tekjur geta t.d. verið í formi sölu á vöru leigu, áskrift eða þóknun.
      Hvaða kostnaður kemur til? Kostnaður fellur til af starfseminni og hægt er fara mismunandi leiðir.

      Ef um nýtt fyrirtæki er að ræða eru ekki til neinar tölur úr rekstri til að byggja á og þarf því að setja fram forsendur að áætlunum en út frá þeim eru niðurstöður fengnar. Dæmi um forsendur eru t.d. sala, fjöldi starfsmanna, laun þeirra, vaxtastig lána og svo framvegis. 

      Fjárhagsáætlun

      Fjárhagsáætlanir samanstanda annars vegar af tekju- og kostnaðaráætlun sem er rekstraráætlun fyrirtækisins og hins vegar af áætlun um inn- og útborganir sem er greiðsluáætlun fyrirtækisins.

      Rekstraráætlun

      Í rekstraráætlun þarf að setja niður hvernig gjöld greiðast úr fyrirtækinu og hvernig tekjur koma inn. Rekstraráætlun ætti í flestum tilfellum að ná til að lágmarki þriggja ára. Hún sýnir áform um þróunstarfseminnar og endurspeglar áður framsett markmið og söluáætlun.

      Greiðsluáætlun

      Í greiðsluáætlun má sjá hvernig þau úrræði sem eru til umráða (handbært fé) breytast frá upphafi hversmánaðar til loka hvers mánaðar. Þetta er gert með því að setja allar hreyfingar á peningum upp í yfirlit þar sem efnisflokkar eru lóðrétt og mánuðir eru lárétt, upphæðirnar eru skráðar þar sem búist er við að hreyfingar verði.

      Sjá nánar á Fjármál

      Áætlun um sjóðsstreymi

      Hér er gerð grein fyrir lykiltölum úr áætlun um sjóðstreymi í texta.

      Dæmi um texta:
      Fjárstreymi inn og út úr starfseminni nokkuð sveiflukennt. Sölutekjur koma ekki inn fyrr en í lok fyrsta árs, en umtalsverð rekstrarfjárþörf er til staðar allt frá júnímánuði sama árs. Veltufé frá rekstri er því neikvætt á fyrsta ári. Þörf fyrir lausafé í upphafi rekstrar verður mætt með lánsfé.
      Áætlun gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði jákvætt á öðru og þriðja ári og að handbært fé í lok annars og þriðja árs verði jákvætt. Arðgreiðslugeta til hluthafa ætti því að verða nokkur á öðru og þriðja ári.

      Stofnkostnaðar­áætlun

      Mikilvægt er að stilla upp stofnkostnaðaráætlun áður en farið er af stað í fyrirtækjarekstur. Nauðsynlegt er að átta sig á því hvað það kostar að hrinda hugmynd í framkvæmd og hvernig brúa skal bilið þar til reksturinn fer að skila tekjum. Stofnkostnaðaráætlun snýst um að lista upp þann kostnað sem fellur á fyrstu stigum og fer sá kostnaður eftir því hver viðskiptahugmyndin er.

      Algengir kostnaðarliðir eru hér eftirfarandi en athugið að listinn er ekki tæmandi:

      – Undirbúningskostnaður – gerð viðskiptaáætlana, prófanir, öflun markaðsupplýsinga, leit að fjárfestum og/eða samstarfsaðilum.
      – Þróunarkostnaður – sá kostnaður sem felst í því að koma vöru eða þjónustu í söluhæft form.
      – Tæki og búnaður – hér er um að ræða hvers kyns tæki og búnaður sem nauðsynlegt er að fjárfesta í þannig að starfsemi geti hafist.
      – Húsnæði og innréttingar – huga þarf að standsetningu húsnæðis, vinnu iðnaðarmanna, innréttingar, merkingar og leiga húsnæðis.
      – Markaðskostnaður – hér er átt við þá þætti markaðsáætlunar sem snúa að gerð vörumerkis, umbúða, bæklinga, nafnspjalda og öðru kynningarefni sem þarf til áður en farið er af stað.
      – Skráningar – og leyfisgjöld – ýmis kostnaður fylgir skráningu fyrirtækja og öflun leyfa (fer eftir starfsemi).
      – Ýmis sérfræðikostnaður – til dæmis má hér nefna lögfræðinga, endurskoðendur og tölvuþjónustu. 

       

      Viðaukar og fylgiskjöl

      Mjög mismunandi er hvort frekari upplýsingum er bætt við viðskiptaáætlunina sem fylgiskjölum. Hér ræður eðli og umfang viðskiptahugmyndarinnar hverju sinni. Dæmi um upplýsingar sem gjarnan eru sett með sem fylgiskjöl:

       – Ferilskrá stofnenda fyrirtækisins.
       – Nánari umfjöllun um forsendur fyrir tilteknum þáttum í áætluninni, t.d. forsendur fyrir söluspá, forsendur fyrir verðlagningu, sundurliðun kostnaðar, o.s.frv.
       – Ítarlegri útfærsla á fjárhagsáætlunum (útprentun úr fjárhagslíkani).
       – Niðurstöður markaðsrannsókna.
       – Afrit af starfsleyfum, leyfisbréfum eða öðrum slíkum skjölum.
       – Lög og reglugerðir sem varða fyrirhugaða starfsemi.
       – Teikningar eða skýringarmyndir sem varða vöru, aðstöðu, byggingar eða staðhætti.
       – Kynningarefni um þá vöru eða þjónustu sem ætlunin er að framleiða/veita t.d. bæklingar, auglýsingar, útprentanir af vefefni, o.s.frv..
       – Heimildaskrá, m.a. um fyrirliggjandi markaðsupplýsingar.

      Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga við gerð viðskiptaáætlunar

      1. Hafðu í huga fyrir hvern áætlunin er ætluð. Hver verður lesandinn? Almennt gildir þó að skrifa ætti á einfaldri íslensku. Vanda málfar og stafsetningu og passa vel upp á skammstafanir og greinamerkjasetningu. Mjög gott er að fá utanaðkomandi aðila til að lesa yfir fyrir sig áður en lögð er lokahönd á áætlunina.

      2. Hafðu markmiðin SMART- Sértæk, Mælanleg, Aðgengileg, Raunhæf og Tímasett. Því sértækari sem markmiðin eru þeim mun betur er verkefnið skilgreint. Skýr markmiðasetning gerir einnig áætlunina skýrari aflestrar og dregur fram mikilvægustu upplýsingarnar.

      3. KISS – Keep It Short and Simple, með öðrum orðum ber að forðast óþarfa málalengingar og endurtekningar. Haltu þig við lykilupplýsingar. Það auðveldar og einfaldar lestur áætlunarinnar.

      4. Nýttu heimildir til að rökstyðja staðhæfingar þínar og haltu þig við áreiðanlegar heimildir. Tilvitnanir í sérfræðinga á viðkomandi sviði geta einnig hjálpað þér við að rökstyðja mál þitt (munnlegar heimildir). Nauðsynlegt er að vitna í þær heimildir sem nýttar eru hvort sem þær eru ritaðar eða munnlegar.

      5. Gott er að nota myndir og gröf til að skýra mál sitt.

      6. Vanda ber lokafrágang. Útlit forsíðu skiptir máli, muna eftir blaðsíðutali, myndtextum þar sem það á við, huga að heildarbrag skjalsins (t.d. samræmi í leturstærðum og gerðum bæði í titlum og meginmáli).

      7. Að skrifa viðskiptaáætlun á aldrei að vera leiðinlegt. Fullgerð áætlun ætti að endurspegla áhuga þinn og trú á hugmyndinni.

      Örviðskiptaáætlun 

      Innihald örviðskiptaáætlana er í stuttu máli svona:

      – Grunnupplýsingar 
      – Samantekt 
      – Varan 
      – Markaður 
      – Framkvæmd 
      – Fjárhagur 

       

      Grunnupplýsingar

      Grunnupplýsingar um teymi fyrirtækisins, svo sem upplýsingar um menntun og reynslu sem nýtist við rekstur fyrirtækisins ættu að koma fram í upphafi viðskiptaáætlunarinnar.

      Heiti verkefnis og á hvaða formi verður það rekið. Staðsetning, starfsemi og slíkar upplýsingar.

      Samantekt

      Lykilatriði úr hverjum kafla fyrir sig birtast í samantektinni  og því er eðlilegast að vinna hana þegar vinnslu annarra kafla er lokið. Samantektin þarf að vera hnitmiðuð og gefa glögga mynd af viðskiptaáætluninni í heild, þar þarf að gera öllum megin þáttum áætlunarinnar skil, lýsa þörf fyrir vöru/þjónustu og hvernig á að uppfylla þörfina.

      Koma þarf fram hver áætlaður markaður er og hvernig varan er í samanburði við aðra á markaði. Einnig að gera grein fyrir því hver áætlaður stofnkostnaður er og því hvernig fjármögnun verður háttað. Niðurstöður rekstraráætlunarinnar eru gjarnan settar fram í töflu, þar sem fram koma tekjur, kostnaður og rekstrarniðurstaða.

      Samantektin er í raun sölusíða viðskiptaáætlunarinnar sjálfrar. Hún þarf strax í upphafi að vekja áhuga lesandans. Þar á eftir koma mikilvægustu atriði viðskiptaáætlunarinnar sjálfrar og í lok samantektarinnar þarf að benda á hvað viðskiptatækifærið er álitlegt.

      Hafa skal í huga að lesendur viðskiptaáætlunarinnar munu í einhverjum tilfellum eingöngu lesa samantektina. Samantektin ætti ekki að vera meira en ein blaðsíða að lengd.

      Varan/Virðið

      Hér skal lýsa hvaða þörfum viðkomandi vara eða þjónusta er ætlað að mæta eða hvað tækifæri viðskiptahugmyndinni er ætlað að grípa. Einnig er hér sagt frá viðskiptahugmyndinni og megintilgangi hennar í örfáum setningum.

       – Hver er söluvaran, helstu eiginleikar hennar og sérstaða.

       – Hvernig uppfyllir varan þarfir viðskiptavinarins og skapar fyrirtækinu sérhæfingu og samkeppnisforskot. Hvernig er þörfinni sinnt núna?

      Virði fyrir viðskiptavin getur m.a. verið fólgið í nýjungum , bættri virkni, lágu verði, betri gæðum, einföldu notendaviðmóti, góðri hönnun og sterkri ímynd.

      Lýstu vörunni á einfaldan hátt svo aðrir sem ekki þekkja til skilji um hvað er að ræða, t.d. fjöldi vöruflokka, eiginleikar og/eða sérstaða hvers vöruflokks.

      Markaðurinn og samkeppnin

      Hér þarf að koma fram

      Lýsing á markaði(m.t.t. umfangs, fjölda viðskiptavina og samkeppnisaðila)

      Hver er markhópurinn? Mikilvægt er að fram komi hverjir eru væntanlegir markhópar, en þeir geta verið mismunandi eftir ólíkum vörum fyrirtækisins. Lýsa þarf einkennum valdra markhópa og hvernig megi ná til viðkomandi hóps. Hvar búa viðskiptavinirnir? Hverjar eru kaupvenjur helstu viðskiptavina og hvernig mun fyrirtækið koma til móts við þær? Hvert verður megin markaðssvæði fyrirtækisins?

      Verð: Út frá hverju er verð vörunnar fundið?  Verður verðlagning mismunandi eftir árstíðum? Á að bjóða ákveðnum hópum sérkjör? Hvernig verður greitt fyrir vöruna?

      Dreifileiðir: Hvernig verður vörunni dreift til viðskiptavina? Ætlar fyrirtækið að selja beint til viðskiptavina, gegnum smásala (verslanir), eða í gegnum aðra milliliði? 

      Hér getið þið notað upplýsingar úr Markaðs- og samkeppnisgreiningunni og Viðskiptavinir

       

      Framkvæmd

      Framkvæmdaáætlun

       – Framkvæmdaáætlun inniheldur nánari útlistun á því hvaða verk þarf að vinna til þess að starfsemin geti farið af stað og vara/þjónusta fari á markað. Setja þarf upp raunhæft mat á því hversu langan tíma það tekur að inna af hendi einstök verk. Ef verkefnið er mjög fjölþætt er eðlilegt að draga út mikilvægustu þættina hér, en sýna sundurliðaða framkvæmdaáætlun í fylgiskjali. Mikilvægt er að huga vel að þeirri starfsemi sem skapar fyrirtækinu sérstöðu, hvort sem sú sérstaða byggir á lágu verði, miklum gæðum eða einhverju öðru

      Verkáætlun inniheldur nánari útlistun á því hvaða verk þarf að vinna til þess að starfsemin geti farið af stað og vara fari á markað? Setja þarf upp raunhæft mat á því hversu langan tíma það tekur að inna af hendi einstök verk. Ef verkefnið er mjög fjölþætt er eðlilegt að draga út mikilvægustu þættina hér, en sýna sundurliðaða verkáætlun í fylgiskjali

       – Markmiðasetning: Hafðu markmiðin SMART- Sértæk, Mælanleg, Aðgengileg, Raunhæf og Tímasett. Því sértækari sem markmiðin eru þeim mun betur er verkefnið skilgreint. Skýr markmiðasetning gerir áætlunina einnig skýrari aflestrar og dregur fram mikilvægustu upplýsingarnar.

       – Hvaða leiðir verða nýttar til að ná til viðskiptavinanna (auglýsingar, markpóstur, heimasíða, bein samskipti mann á mann, o.s.frv.)?

      Gróf fjárhags- og rekstraráætlun

      Stofnkostnaðar­áætlun

      Mikilvægt er að stilla upp stofnkostnaðaráætlun áður en farið er af stað í fyrirtækjarekstur. Nauðsynlegt er að átta sig á því hvað það kostar að hrinda hugmynd í framkvæmd og hvernig brúa skal bilið þar til reksturinn fer að skila tekjum. Stofnkostnaðaráætlun snýst um að lista upp þann kostnað sem fellur á fyrstu stigum og fer sá kostnaður eftir því hver viðskiptahugmyndin er.

      Fjárhagsáætlun

      Fjárhagsáætlanir samanstanda annars vegar af tekju- og kostnaðaráætlun sem er rekstraráætlun fyrirtækisins og hins vegar af áætlun um inn- og útborganir sem er greiðsluáætlun fyrirtækisins. Hvernig koma tekjurnar inn? Tekjur fyrirtækisins geta skilað sér með ýmsum hætti. Tekjur geta t.d. verið í formi sölu á vöru leigu, áskrift eða þóknun.
      Hvaða kostnaður kemur til? Kostnaður fellur til af starfseminni og hægt er að fara mismunandi leiðir.

       

       

      Viðaukar og fylgiskjöl

      Mjög mismunandi er hvort frekari upplýsingum er bætt við viðskiptaáætlunina sem fylgiskjölum. Hér ræður eðli og umfang viðskiptahugmyndarinnar hverju sinni. Dæmi um upplýsingar sem gjarnan eru sett með sem fylgiskjöl:

       – Ferilskrá stofnenda fyrirtækisins.
       – Nánari umfjöllun um forsendur fyrir tilteknum þáttum í áætluninni, t.d. forsendur fyrir söluspá, forsendur fyrir verðlagningu, sundurliðun kostnaðar, o.s.frv.
       – Ítarlegri útfærsla á fjárhagsáætlunum (útprentun úr fjárhagslíkani).
       – Niðurstöður markaðsrannsókna.
       – Afrit af starfsleyfum, leyfisbréfum eða öðrum slíkum skjölum.
       – Lög og reglugerðir sem varða fyrirhugaða starfsemi.
       – Teikningar eða skýringarmyndir sem varða vöru, aðstöðu, byggingar eða staðhætti.
       – Kynningarefni um þá vöru eða þjónustu sem ætlunin er að framleiða/veita. (Bæklingar, auglýsingar, útprentanir af vefefni, o.s.frv.).
       – Heimildaskrá, m.a. um fyrirliggjandi markaðsupplýsingar.

      Stefnumótun: Stefna, framtíðarsýn, hlutverk og gildi

      Stefna, framtíðarsýn, hlutverk og gildi eru grunnstoðir þess fyrir hvað fyrirtækið standi í raun og veru fyrir og afgerandi við að ákveða hverjir viðskiptavinirnir verða þegar horft er til framtíðar. Mörg stór fyrirtæki vinna ákaft að því að skilgreina þessi atriði en þau geta líka verið góður leiðarvísir fyrir lítil fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi.

      Stefna er langtímaáætlun, sem nær þó yfir tiltekið tímabil, en hlutverk stefnu er að styðja stjórnendur og starfsfólk við áætlunargerð og ákvörðunartöku, til að ná ákveðnu markmiði, sem fyrirtækið hefur sett sér

      Framtíðarsýn eru þau huglægu- og hlutlægu markmið sem fyrirtækið stefnir á að ná þegar fram líða stundir.

      Hlutverk er notað til að lýsa starfsemi fyrirtækisins: Hvað það gerir, hverjir viðskiptavinir þess eru og hvernig og oft hvers vegna það gerir það sem það gerir.

      Gildi speglar kjarnahugmyndafræði fyrirtækisins með því að lýsa þeim grunngildum sem hafa áhrif á fyrirtækjamenninguna og stýra daglegri starfsemi.

      Það erfiðasta við að draga fram hlutverk fyrirtækisins, sýnina og gildin er að finna út úr því fyrir hvað fyrirtækið stendur í raun og veru. Þetta getur verið mjög snúið þegar stjórnendur eru margir og allir hafa sínar eigin hugmyndir um fyrirtækið. Á hinn bóginn gefur svona stefnumótunarvinna góða möguleika á að ræða ólíkar hugmyndir um fyrirtækið, hvers vegna það var stofnað, hvers vegna það er til, hugsanlegan vöxt o.s.frv.

      Dæmi: HLUTVERK, SÝN, GILDI OG MARKMIÐ STJÓRNVÍSI

      Hlutverk Stjórnvísi: Efla gæði stjórnunar á Íslandi með því að skapa hvetjandi vettvang fyrir gagnkvæma þekkingarmiðlun, umræður og tengslamyndun.

      Framtíðarsýn Stjórnvísi 2020: Að vera leiðandi í umræðu um faglega stjórnun auk þess að vera fyrsti valkostur í þekkingarleit, miðlun og tengslamyndun.

      Gildi Stjórnvísi:

      • Framsækni: Við sækjum fram af krafti og horfum til nýjustu strauma og stefna í faglegri stjórnun
      • Fræðsla: Við miðlum fjölbreyttri þekkingu og reynslu
      • Fagmennska: Við höfum fagmennsku að leiðarljósi og leitum ávallt til færustu sérfræðinga í hverju fagi á hverjum tíma

      Meginmarkmið:

      • Framsæknir og hæfir einstaklingar starfa (af heilindum) fyrir Stjórnvísi
      • Stjórnvísi er leiðandi í umræðu um faglega stjórnun
      • Fagmennska er ávallt höfð að leiðarljósi í öllum okkar störfum.