Varan/þjónustan
Efnisyfirlit síðu
Hvað þarf að hafa í huga í sambandi við vöruna og frumkvöðlastarfsemi?
Byrjaðu með eina hugmynd/vöru
Hvað ertu að fara að bjóða upp á? Ein setning!
Grunnspurningarnar
Aðrar grunnspurningar
Hugverkaréttindi (e. intellectual property – IP)
Annað sem gott er að vita
Bakarísleiðin
Ýmsir tenglar og náms- og/eða stuðningsefni sem tengjast ofangreindu efni
Hvað þarf að hafa í huga í sambandi við vöruna og frumkvöðlastarfsemi?
Óhætt er að fullyrða að góður undirbúningur er lykillinn að farsælli frumkvöðlastarfsemi. Að mörgu er að hyggja og mörgum spurningum þarf að svara áður en farið er af stað með viðskiptahugmynd, sama hvers eðlis hún er. Hér eru örfáar grunnspurningar (vara er notuð hér bæði yfir vöru og þjónustu) :
- Hver er varan sem þú ætlar að bjóða upp á
- Hvernig er samkeppnin?
- Hvað er öðruvísi við þína vöru samanborið við annarra – af hverju ætti einhver að kaupa þína vöru í stað annarra svipaðra?
- Hverjir eiga eftir að kaupa vöruna, þ.e. hverjir verða viðskiptavinir þínir?
- Hvernig eru markaðsaðstæðurnar fyrir vöruna þína?
- Hvar eiga viðskiptavinir eftir að geta keypt vöruna?
Þetta er einungis brot af þeim spurningum sem æskilegt er að geta svarað en á þessari heimasíðu, undir námsefni, eru ótal aðrir þættir sem þú þarft að kynna þér. Það er ósköp einfalt að því betur sem þú kynnir þér efnið og undirbýrð þig, því meiri líkur eru á að þér farnist vel. En af hverju þarf að undirbúa sig svo vel og hverju getur allur þessi undirbúningur svarað? Í fyrsta, öðru og þriðja lagi getur þessi undirbúningur gefið þér svör um hvort raunveruleg þörf/markaður sé fyrir vöruna. Í fjórða lagi getur hann gefið þér svör um hvað þú þarft að gera til að uppfylla þörfina, í fimmta lagi hvort þú getur uppfyllt hana … osfrv. osfrv.
Ef niðurstöður undirbúningsvinnunnar eru mjög neikvæðar, er kannski ekkert nema gott um það að segja – betra er að hætta strax heldur en að leggja vinnu og peninga í eitthvað sem kemur svo síðar í ljós að engin markaður var fyrir.
Einnig geta niðurstöður undirbúningsvinnunnar sýnt fram á að varan, eins og þú hafðir hugsað þér hana í upphafi, sé að mörgu leyti fínasta hugmynd en að nauðsynlegt sé að breyta henni þannig að hún uppfylli þarfir viðskiptavina betur og/eða eigi meiri möguleika í samkeppninni. Eftir allan undirbúninginn ættir þú auðveldlega að geta svarað ofangreindum spurningum, ásamt öðrum mikilvægum, og þá verður lítið mál fyrir þig að fylla inn í Viðskiptamódel Canvas – þú þarft ekki meira til að komast vel af stað.
Mikilvægt er þó að hafa í huga að fyrir margar vörur og þjónustur, sem urðu vinsælar, var engin augljós þörf til staðar í upphafi og fáir eða engir höfðu nokkra trú á hugmyndinni, nema frumkvöðullinn sjálfur.
Byrjaðu með eina hugmynd/vöru
Margir frumkvöðlar eru með ótal hugmyndir í kollinum og oft eru þeir að vinna að mörgum hugmyndum í einu. Það er þó fátt sem mælir með því. Að vinna að mörgum hugmyndum í einu þýðir að bæði tíma og fjármagni er dreift á fleiri staði, áherslu er þá ekki haldið á einni hugmynd og því er erfitt að gera þær áætlanir sem nauðsynlegt getur verið að gera. Æskilegra er að frumkvöðlar einbeiti sér að einni hugmynd til að byrja með og leggi mat á hvort hún sé vænleg til árangurs. Notaðu töfluna til að leggja mat á hugmyndina. Einnig er hægt að nota hana til að bera saman nokkrar hugmyndir. Því fleiri stig sem hugmyndin fær, því meiri ástæða er að fara af stað með hana. Athugaðu þó að flokkarnir hafa mismikið vægi eftir hugmyndum og þó svo að hún fái mörg stig getur verið erfitt eða jafnvel vonlaust að fara af stað með hana og að framkvæma hana, hún getur kostað 15 milljarða í stofnkostnað o.s.frv..
Frumkvöðlar þurfa að þekkja viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtækið vel – og geta útskýrt það fyrir öðrum, t.d. fjárfestum, í stuttu og skýru máli. Gott er að geta lýst þessu í einni eða tveimur setningum. Dæmi: Sólarfatnaður ehf. er að þróa fatnað með innbyggðri sólarsellu sem útivistarfólk getur notað til að hlaða farsíma og önnur smærri raftæki, með því að tengja raftækin við innstungu í fatnaðinum.
Getur þú lýst hugmyndinni í einni setningu? Athugaðu að þegar þú ferð að vinna í hugmyndinni getur margt átt eftir að breytast í setningunni.
Grunnspurningarnar
Fylltu inn í kassana eftir bestu getu, þ.e. frumhugmyndir þínar um þessa þætti:
- Hver heldur þú að muni kaupa/nota vöruna?
- Er einhver nýung í henni? Hver er hún?
- Hvernig er samkeppnin? Er hún mikil/lítil, eru margar/fáar sambærilegar vörur(eða aðrar sem geta komið í staðinn, þ.e. staðkvæmdarvörur) á markaðnum?
- Hvað er öðruvísi við þína vöru en aðrar sambærilegar? Er hún ódýrari, betri, hollari, umhverfisvænni o.s.frv.
- Hvað kostar ca. að koma hugmyndinni af stað? Verða háir fastir mánaðarlegir kostnaðarliðir?
- Hvar geta viðskiptavinirnir nálgast vöruna?
- Hvernig og hvar ætlar þú að ná til viðskiptavinanna, þ.e. hvar ætlar þú að auglýsa osfrv?
Athugaðu að alveg eins og í liðnum hér fyrir ofan getur margt átt eftir að breytast þegar þú ferð að vinna betur í þessu. .
Aðrar grunnspurningar
Hefur þú persónulega áhuga á hugmyndinni og ertu reiðubúin(n) til að eyða tíma þínum í hana?
Hefur þú fjármagn, tíma, þekkingu og/eða getu til að vinna að hugmyndinni – og klára hana?
Þarftu aðstoð eða samstarfsaðila? Hverja þá?
Þarftu að fá einhver leyfi?
Svo má alls ekki gleyma:
Ertu búin(n) að athuga hvort þú getir fengið einkaleyfi, hönnunarvernd eða önnur réttindi fyrir hugmyndinni?
Ertu búin(n) að athuga hvort einhver sé með einkaleyfi, hönnunarvernd eða önnur réttindi/leyfi fyrir hugmyndinni eða annarri mjög svipaðri.
Hugverk (e. intellectual property – IP) eru iðulega talin vera verðmætustu eignir fyrirtækja, ekki síst þeirra sem vinna að nýsköpun, rannsóknum og þróun. Hugverk eru óáþreifanleg verðmæti sem oft og tíðum skapa grunninn að starfsemi og velgengni fyrirtækja. Í mörgum tilvikum eru þau falinn fjársjóður sem nýta má við frekari framgang fyrirtækisins.
Hugverkaréttindi eru viðskiptatæki
Sum hugverkaréttindi eru háð skráningu (einkaleyfi, vörumerki, hönnun) en önnur má vernda með öðrum viðeigandi ráðstöfunum. Ætíð þarf að meðhöndla og stjórna hugverkum á ábyrgan og skipulagðan hátt til að halda utan um og hámarka verðmæti þeirra. Hugverk og hugverkaréttindi eru viðskiptatæki sem hægt er að nota til að ná markmiðum á sviði viðskipta, við nýsköpun og í markaðsstarfi.
Sjá nánar á Hugverkastofu: https://www.hugverk.is
Annað sem gott er að vita
Rekstur sem gengur vel uppfyllir í flestum tilfellum eina eða fleiri af fullyrðingunum hér að neðan
• Vara/þjónusta sem aldrei hefur verið boðið upp á áður.
• Þróun eða aðlögun vöru/þjónustu að nýjum þörfum.
• Vara/þjónusta boðin hópi sem ekki hefur verið vel sinnt.
• Vara/þjónusta boðin á svæði sem ekki hefur verið vel sinnt.
• Bjóða sömu vöru/þjónustu betur en allir hinir.
• Bjóða sömu vöru/þjónustu ódýrar en allir hinir.
Líttu nú á næstu „kafla“ undir náms– og stuðningsefninu til að átta þig betur á frumkvöðlastarfi og hvað þarf til að auka líkur á að viðskiptahugmynd þín verði að veruleika. Kynntu þér efnið nokkuð vel og innan skamms ættir þú að geta lýst hugmynd þinni á skilmerkilegan hátt. Í lýsingunni þurfa að koma fram nokkrir grunnþættir – en athugaðu að ef þú getur svarað þeim ertu einfaldlega komin(n) á ágætis leið og ferð að vera reiðubúin(n) til að fylla inn í Canvas og svo að gera örviðskiptaáætlun – þá getur þú farið að sækja um styrki.
i.
Þetta er í raun ekki flóknara en þetta – svaraðu þessum spurningum og þú ert komin í ágætis mál:
- Nafn fyrirtækis og/eða hugmyndar
- Lýsing á viðskiptahugmyndinni. Hér þarf að draga fram:
- Lýsing á viðskiptahugmyndinni
- Hver er þörfin/vandamálið sem ætlað er að leysa?
- Hver er lausnin?
- Nýnæmi hugmyndarinnar(ef eitthvað er)
- Hverjir eru aðgreinandi þættir vörunnar/þjónustunnar, miðað við svipaðar vörur/þjónustu á markaðnum?
- Hvernig er samkeppnin?
- Hver er markhópurinn/helstu viðskiptavinir?
- Hvar geta viðskiptavinir nálgast vöruna/þjónustuna?
Bakarísleiðin
Þó sannarlega sé mælt með góðum undirbúningi áður en farið er af stað með viðskiptahugmynd – og svo farið í gegnum allt ferlið – eru margar hugmyndir/vörur/hönnun þess eðlis að það getur í raun verið óþarfi að eyða miklum tíma í undirbúninginn. Með sumar vörur er einfaldlega hægt að fara Bakarísleiðina. Hún gengur út á það að þið prófið að selja eina vöru. Ef það gengur upp notið þið peninginn til að framleiða fleiri vörur og selja þær síðan, og svo koll af kolli, þar til að salan er orðin það mikil að fyrirtæki er í raun orðið til. Þetta hentar vel fyrir vörur/hönnun sem þið getið auðveldlega gert (og eins heima hjá ykkur) án þess að eyða miklum tíma og fjármagni í það. Þessi leið hentar líka vel fyrir vörur sem engin augljós þörf er fyrir. .
Annað stuðningsefni til útprentunar